Loftslag og orka

Formáli

Loftslagsmál og hlýnun jarðar hafa verið mikið í umræðunni undanfarin ár og verða sífellt meira áberandi með hverju árinu sem líður. Flestir eru sammála um að við viljum ganga vel um náttúruna og nýta auðlindir hennar á sjálfbæran hátt. Hvernig mennirnir nýta orkuauðlindir jarðar hefur mikil áhrif á gæði loftlags og lífsgæði. Jarðhiti á Íslandi er mikilvæg orkuauðlind sem gerir stærstum hluta landsmanna kleift að kynda híbýli sín á afar umhverfisvænan hátt. Flest þeirra sem ekki geta nýtt jarðvarma til upphitunar nota til þess umhverfisvæna raforku.

 

Hlutverk

Sveitarfélögin gegna veigamiklu hlutverki í að ná þeim alþjóðlegu skuldbindingum og markmiðum sem Ísland hefur sett sér í loftslagsmálum. Þeim er samkvæmt lögum ætlað að móta sér loftslagsstefnu um rekstur sinn og í landsskipulagsstefnu sem nú er í mótun, er lögð áhersla á að skipulag taki mið af loftslagsmálum.

Umhverfisstefna sveitarfélagsins tekur mið af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Sífellt meiri kröfur eru gerðar um aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum í áætlanagerð á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Auknar kröfur eru m.a. gerðar í reglum EES um meðhöndlun úrgangs og innleiðingu hringrásarhagkerfis hugsunar í framleiðslu og starfsemi sem hafa bein áhrif á sveitarfélögin.

 

Forsendur

Orkuframleiðsla, dreifing og notkun

Í Þingeyjarsveit eru bæði heit og köld svæði. Hitaveitur eru á Laugum, í Aðaldal og hluta Kaldakinnar, Fnjóskadal og á Stórutjörnum en víða er húsnæði í sveitarfélaginu kynt með rafmagni. Þrátt fyrir að mikill jarðvarmi sé innan sveitarfélagsins gera fjarlægðir það að verkum að ekki er framkvæmanlegt að hitaveituvæða sveitarfélagið í heild sinni. Fullur vilji er þó innan sveitarfélagsins að leita leiða til dreifingar á heitu vatni til húshitunar á fleiri svæði sé þess nokkur kostur svo fleiri geti notið þeirra lífsgæða sem heita vatnið býður upp á.

Í sveitarfélaginu eru margar virkjanir sem framleiða rafmagn með endurnýjanlegri hreinni orku. Vatnsaflsvirkjanirnar eru m.a. Laxárvirkjun, Árteigsvirkjun og Hólsvirkjun en stærst er jarðvarmavirkjunin á Þeistareykjum. Einnig er í sveitarfélaginu talsverður fjöldi smávirkjana og heimarafstöðva og þó margar þeirra séu komnar til ára sinna eru einnig nýlegar virkjanir í sveitarfélaginu. Þingeyjarsveit hvetur landeigendur til uppbyggingar og/eða til nýbyggingar á litlum heimarafstöðvum á jörðum sínum. Gerð hefur verið skýrsla varðandi smávirkjunarkosti í sveitarfélaginu og eru niðurstöður hennar að til eru nokkur ónýtt vatnsföll sem vel eru til þess fallin að koma á fót smávirkjunum á umhverfisvænan hátt.

Nýting vindorku er ekki til staðar í Þingeyjarsveit. Engin almenn stefna hefur verið mörkuð um vindorku á Íslandi og hefur Þingeyjarsveit enn sem komið er ekki tekið afstöðu til málaflokksins.

Raflínur hafa verið talsvert áberandi í Þingeyjarsveit enda eru vegalengdir mjög miklar milli svæða. Stærstar eru Kröflulína, Þeistareykjalína og Laxárlína. Hólasandslína 3 mun svo bætast við en hún mun tengja Þeistareyki og Laxárvirkjun til Akureyrar. Laxárlína verður aflögð í kjölfarið.

Talsvert vantar upp á að þriggja fasa rafmagn sé í öllu sveitarfélaginu sem hamlar bæði landbúnaðar- og fyrirtækjastarfsemi. Innansveitar raflínur eru víða gamlar og flutningsgetan lítil. Úrbætur eru hafnar á landsvísu og er stefna Rariks að allt dreifikerfi þeirra fari í jörð og verði þriggja fasa. Unnið er samkvæmt framkvæmdaáætlun en Ríkissjóður hefur í einhverjum tilfellum lagt til aukið framlag til að flýta framkvæmdum.

Til að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif virkjanakosta, skiptir gríðarmiklu máli að vanda vel til verka við alla umfjöllun, undirbúning og ákvörðunartöku vegna slíkra verkefna. Við mat og ákvörðun á nýjum orkukostum skal taka tillit til gildandi rammaáætlunar hverju sinni.

Þingeyjarsveit vill hvetja íbúa til að huga að hagkvæmri rafmagnsnotkun, leita leiða til að draga úr orkunotkun án þess að skerða lífsgæði og velja umhverfisvænar lausnir þar sem það á við.

 

Samgöngur og orkuskipti

Í Þingeyjarsveit eru ennþá margir malarvegir m.a. í Útkinn, Bárðardal og Fnjóskadal. Malarvegir hafa hamlandi áhrif á uppbyggingu og möguleika á orkuskiptum bílaflotans í hluta sveitarfélagsins. Þingeyjarsveit vill leggja áherslu á bættar vegsamgöngur, svo sem uppbyggingu og bundið slitlag á alla vegi og tvöföldun á einbreiðum brúm þar sem umferð er mikil. Sveitarfélagið hvetur íbúa til að sameinast í bíla og samnýta ferðir. Með minni og hagkvæmari umferð á vegum, eykst umferðaröryggi, svifryk og útblástur minnka ásamt sparnaði á eldsneyti og tækjum. Sveitarfélagið hvetur til fjarfunda þar sem það á við.

Meirihluti farartækja íbúa sem og önnur vinnu- og landbúnaðartæki í sveitarfélaginu er bensín- eða díselolíudrifin en eigendum rafmagnsbíla og tvinnbíla fer fjölgandi. Með sí auknum valkostum á umhverfisvænum farkostum aukast möguleikar íbúa á að taka þátt í orkuskiptum bíla- og tækjaflota landsmanna.

Stefnt er að því að hvetja söluaðila rafmagns að koma að uppsetningu hleðslustöðva í sveitarfélaginu m.a. við fjölsótta vinnu- og ferðamannastaði, skóla, félagsheimili og íþróttamiðstöðvar. Með fjölgun hleðslustöðva aukast líkur á að rafmagnsbíll verði fýsilegur kostur fyrir íbúa í jafn dreifbýlu sveitarfélagi og Þingeyjarsveit er.

 

Úrgangur og endurnýting

Í Þingeyjarsveit er sorp flokkað og flutt til endurvinnslu. Almennt sorp fer til urðunar. Á hverju heimili eru 3 flokkunartunnur (fyrir plast, pappa og almennt sorp) og sér Þingeyjarsveit í samvinnu við gámafyrirtæki um að sækja allt almennt og flokkað sorp heim til íbúa. Eitt gámasvæði er í sveitarfélaginu, á Grundarmel í landi Stórutjarna, sem tekur á móti öllu sorpi þar sem íbúar flokka í gáma. Gámasvæðið tekur við mengandi úrgangi til förgunar.

Stefna sveitarfélagsins er að lífrænn úrgangur verði einnig flokkaður og verði komið í endurnýtingarferli. Stefna sveitarfélagsins er að fræða og vekja fólk til umhugsunar um matarsóun og hvetja íbúa til að minnka úrgang til urðunnar. Einnig hvetur sveitarfélagið til sem bestrar endurnýtingar þar sem það á við. Efla mætti gámasvæðið m.a. með því að hafa til staðar nytjagám.

Sveitarfélagið stefnir á að bæta úr endurvinnslu heyrúlluplasts og áhugi er á að koma á samstarfi við innlenda aðila sem taka við rúlluplasti til endurvinnslu.

 

Kolefnislosun og binding í landi

Kolefnislosun frá framræstu landi getur verið mikil. Samkvæmt náttúruverndarlögum nýtur votlendi sérstakrar verndar á Íslandi og er töluvert af því í Þingeyjarsveit. Unnið er að kortlagningu skurða á Íslandi og meta má út frá því korti magn skurða sem eru t.d. á eyðijörðum eða eru búnir að þjóna tilgangi sínum. Sveitarfélagið stefnir að því að fræða og kynna leiðir til endurheimtar votlendis á svæðum sem ekki eru nýtt til ræktunar í dag.

Kolefnislosun getur einnig átt sér stað á illa förnu landi. Virk jarðvegs- og gróðureyðing losar kolefni út í andrúmsloftið. Með því að stöðva jarðvegsrof og gróðureyðingu er hægt að koma í veg fyrir losun.

Miklir möguleikar eru á bindingu kolefnis með skógrækt í Þingeyjarsveit. Á mörgum svæðum í sveitarfélaginu eru náttúrulegir birkiskógar. Í Fnjóskadal eru þrír þjóðskógar í eigu Skógræktar ríkisins, Vaglaskógur, Mela- og Skuggabjargarskógur og Þórðarstaðaskógur og þar er eitt mesta samfellda skóglendi á Íslandi. Fjölmargir aðrir skógar eru í sveitarfélaginu sem margir eru í umsjá Skógræktar ríkisins. Skógrækt er víða stunduð í sveitarfélaginu með góðum árangri og er stefna Þingeyjarsveitar að hvetja til skógræktar, einkum á lítið nýttum landbúnaðarsvæðum, svo sem í hlíðum fjalla og á lítt grónum svæðum. Eins er stefna Þingeyjarsveitar að stuðla að endurheimt birkiskóga sem þegar er komin af stað m.a. vegna breyttra búskaparhátta.

Með uppgræðslu á lítt grónum eða gróðurvana svæðum eykst kolefnisbinding, bæði í lífmassa ofanjarðar sem og í jarðvegi. Landgræðsla er því góð og gild aðferð til kolefnisbindingar þó hlutfallslega sé bindihraði mun hægari en með öðrum aðferðum. En á móti kemur að með landgræðslu er hægt að endurheimta vistkerfi og bæta land. Mikið er af lítt grónu eða ógrónu landi í sveitarfélaginu sem getur bæði hentað til uppgræðslu og skógræktar.

 

 

Markmið sem tengjast þessum kafla:

1 Að Þingeyjarsveit verði kolefnishlutlaus fyrir árið 2040

2 Að Þingeyjarsveit vinni áfram að því að bæta sorpmál

3 Að Þingeyjarsveit hvetji til vistvænni ferðamáta

5 Að lögð verði áhersla á hringrásarhagkerfi

6 Að landnýting í sveitarfélaginu sé ábyrg og sjálfbær

7 Að auka fræðslu um umhverfismál og lýðheilsu, ásamt því að gera fræðsluefni aðgengilegt fyrir íbúa

8 Að hvetja íbúa og fyrirtæki til umhverfisvænni og heilsusamlegri lífsstíls

 

Leiðir

Markmið 1

Að Þingeyjarsveit verði kolefnishlutlaus fyrir árið 2040. Stefnt er að því markmiði með því að:

  • Sveitarfélagið móti sér loftslagsstefnu og aðgerðaáætlun.
  • Sveitarfélagið skili losunarbókhaldi um rekstur sinn árlega til UST.
  • Sveitarfélagið kolefnisjafni starfsemi sína.
  • Auka meðvitund íbúa um málefnið með fræðslu.
  • Skilgreina hvar hægt er að leyfa skógrækt í sveitarfélaginu.
  • Skilgreina hvar sé hægt að fara í kolefnisbindingarverkefni.
  • Hvetja til endurheimtar votlendis.
  • Vinna að því að fá fleiri hleðslustöðvar í sveitarfélagið.

Markmið 2

Að Þingeyjarsveit þrói og vinni áfram að bætingu í sorpmálum. Stefnt er að því markmiði með því að:

  • Finna lausn fyrir lífrænan úrgang frá heimilum og fyrirtækjum.
  • Finna stað fyrir óvirkan úrgang fyrir íbúa sveitarfélagsins.
  • Finna lausn á förgun dýrahræja.
  • Koma á samstarfi við innlenda aðila sem taka á móti heyrúlluplasti til endurvinnslu.
  • Styðja við nýsköpunarverkefni tengd endurnýtingu lífræns úrgangs.

Markmið 3

Að Þingeyjarsveit hvetji til vistvænni ferðamáta. Stefnt er að því markmiði með því að:

  • Vinna að því að fá fleiri hleðslustöðvar í sveitarfélagið.
  • Hafi virka upplýsingasíðu á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem fólk getur sótt sér upplýsingar.

Markmið 5

Að lögð verði áhersla á hringrásarhagkerfi. Stefnt er að því markmiði með því að:

  • Hvetja íbúa til að endurnýta eða endurvinna í stað þess að farga.
  • Hvetja íbúa til að nýta sér staðbundna framleiðslu.
  • Leggja áherslu á að nýta staðbundin matvæli að eins miklu leyti og hægt er í mötuneytum á vegum sveitarfélagsins.
  • Koma fyrir nytjagámi

Markmið 6

Að landnýting í sveitarfélaginu sé ábyrg og sjálfbær. Stefnt er að því markmiði með því að:

  • Skilgreina svæði með tillit til mögulegar landnýtingar (landbúnaðarland, skógræktarsvæði, landgræðslusvæði og svo frv.).
  • Flokka landbúnaðarland. Það landbúnaðarland sem flokkað er sem mjög gott landbúnaðarland verði ekki tekið undir annað.
  • Forðast að skerða votlendi, birkiskóga og önnur mikilvæg vistkerfi.
  • Hvetja til endurheimtar votlendis.
  • Hvetja til að farið sé eftir gildandi áætlunum um beitarstýringu.
  • Hvetja til að unnið sé að uppgræðslu á eyddum og rof skemmdum svæðum.
  • Gera áætlun um að halda ágengum tegundum plantna og dýra í skefjum.
  • Skilgreina stefnu sveitarfélagsins um malarnám og efnistöku.
  • Skilgreina þörf á verndun og uppbyggingu landsvæða.

Markmið 7

Að auka fræðslu um umhverfismál og lýðheilsu, ásamt því að gera fræðsluefni aðgengilegt fyrir íbúa. Stefnt er að því markmiði með því að:

  • Útbúa sérsíðu á heimasíðu sveitarfélagsins sem inniheldur fjölbreyttar upplýsingar og tengla sem fjalla um umhverfismál.
  • Útbúa smáauglýsingar sem birtast í Hlaupastelpunni með litlum ábendingum eða fróðleiksmolum til íbúa.

Markmið 8

Að hvetja íbúa og fyrirtæki til umhverfisvænni og heilsusamlegri lífsstíls. Stefnt er að því markmiði með því að:

  • Útbúa sérsíðu á heimasíðu sveitarfélagsins sem inniheldur ýmiskonar upplýsingar og tengla á síður sem fjalla um umhverfis- og lýðheilsumál.
  • Útbúa smáauglýsingar sem birtast í Hlaupastelpunni með litlum ábendingum eða fróðleiksmolum til íbúa.
  • Hvetja íbúa til að endurnýta eða endurvinna í stað þess að farga.