2G og 3G sendar lagðir niður
Við vekjum athygli á því að það styttist óðum í að eldri farsímaþjónustu, 2G (GSM) og 3G, verði lokað að fullu hér á landi.
Eftirfarandi upplýsingar er að finna á vef Fjarskiptastofu;
Fjarskiptastofa vakti athygli á þessu máli í febrúar 2022 þegar stofnunin efndi til opins samráðs um áætlun farsímafyrirtækja varðandi lokun þjónustunnar. Í lok þess samráðs var gefin út fréttatilkynning um helstu niðurstöður:
Þar kom fram að farsímafyrirtækin hygðust öll loka 2G og 3G þjónustum sínum í síðasta lagi fyrir árslok 2025, en á þeim tímapunkti verða tæp fjögur ár liðin frá því að áform um lokun voru kynnt opinberlega í samráði Fjarskiptastofu. Það skal tekið fram að ákvörðun tímasetningar lokunar 2G og 3G þjónustu er tekin af viðkomandi fjarskiptafélögum en ekki Fjarskiptastofu.
Staða málsins er nú sú að þegar hefur verið slökkt á hluta 2G og 3G þjónustu fjarskiptafélaganna á landinu, en markmið þeirra er að lágmarka neikvæð áhrif á viðskiptavini og því er þetta gert í áföngum. Lokun þjónustu hjá einstökum fyrirtækjum er nú ráðgerð með þessum hætti:
3G
Öll félög eru að draga úr þjónustu og munu loka í árslok 2025.
2G
- Nova – Lokar á 2G í árslok 2024
- Vodafone – Lokar á 2G á miðju ári 2025
- Síminn – Lokar á 2G í árslok 2025
Helstu áhrif lokunar 2G og 3G eru eftirfarandi:
- Símtæki sem eingöngu styðja 2G eða 3G hætta að virka.
- Símtæki sem ekki styðja VoLTE (Voice over LTE) eða hafa ekki virkjað þá stillingu hætta að virka.
- Ýmis tæki til vöktunar, mælinga og stýringar, sem eingöngu styðja 2G eða 3G hætta að virka.
- eCall neyðarhringingakerfi í bifreiðum sem eingöngu styður 2G eða 3G hætta að virka. Tekið skal fram að aðeins hluti bifreiða í notkun í dag er með eCall búnað. Ný tegund eCall búnaðar er í þróun.
Bent er á að verið er að fasa út 2G/3G á heimsvísu og eru ferðamenn því hvattir til að kanna hvort símtæki þeirra virki í því landi sem fyrirhugað er að ferðast til. Til dæmis er búið að loka á 2G/3G þjónustu í Bandaríkjunum
Útbreiðsla farnetsþjónustu á ekki að minnka við lokun 2G/3G því samkvæmt skilmálum tíðniheimilda fjarskiptafélaganna þá ber þeim að tryggja jafn stórt þjónustusvæði, þegar slökkt verði á 2G/3G þjónustu og nýrri tækni 4G/5G tekur við.
Allir þeir sem nota einhvers konar tæki sem treysta á 2G eða 3G samskiptaleiðir eru hvattir til að hafa samband við sitt fjarskiptafélag til þess að fá upplýsingar um þjónustuframboð og ráðleggingar um næstu skref.
Nova https://www.nova.is/netid/bless-3g
Síminn https://www.siminn.is/2g-3g
Vodafone https://vodafone.is/hoppum-inn-i-framtidina
Fjarskiptastofa óskar eftir að fá ábendingar ef skerðing verður á farsímasambandi. Best er að senda tilkynningar á fjarskiptastofa@fjarskiptastofa.is
Einnig er Fjarskiptastofa með kvörtunargátt sem mætti nota: https://www.fjarskiptastofa.is/fjarskiptastofa/tolfraedi-og-gagnasafn/rafraenar-umsoknir-og-tilkynningar/kvortun-fra-neytendum-til-fjarskiptastofu/
Eftirfarandi upplýsingar þurfa þá að koma fram:
- Hver tilkynnir, nafn, símanúmer/tölvupóstfang
- Staðsetning (hvar hefur orðið skerðing á sambandi)
- Hvernig er sambandið í dag?
- Ekkert
- Næst ekki innanhúss
- Léleg gæði sambands
- Hvernig var sambandið áður?
- Hvenær varð breyting á sambandinu
- Hjá hvaða fyrirtæki kaupir viðkomandi farsímaþjónustu
- Hvaða tegund símtækis notar viðkomandi