Á fundi sveitarstjórnar í dag, 28. apríl, var ársreikningur sveitarfélagsins 2021 tekinn til fyrri umræðu. Rekstrarniðurstaðan var mun betri en áætlun gerði ráð fyrir sem skýrist fyrst og fremst af hærri tekjum en áætlað var sem og aðhaldi í rekstri.
Ársreikningur Þingeyjarsveitar 2021 ásamt endurskoðunarskýrslu lagður fram til fyrri umræðu. Þorstein Þorsteinsson frá KPMG, endurskoðandi sveitarfélagsins, mætti til fundarins og fór yfir reikninginn. Einnig sat skrifstofustjóri fundinn undir þessum lið.
Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins í A og B hluta var neikvæð sem nam 17,8 m.kr. og rekstrarniðurstaða A hluta var neikvæð sem nam 21,4 m.kr. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2021 með viðaukum var gert ráð fyrir 101,0 m.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu A og B hluta. Frávikið er því 83,2 m.kr. hagstæðara en áætlað var.
Rekstrartekjur á árinu námu 1.304,5 m.kr. samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 1.252,3 m.kr. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2021 með viðaukum var gert ráð fyrir rekstrartekjum sem næmu 1.218,9 m.kr. í A og B hluta. Rekstartekjur eru því 85,6 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir eða sem nemur um 7 %.
Rekstrargjöld A og B hluta, þ.e. laun og launatengd gjöld og annar rekstrarkostnaður námu 1.237,0 m.kr. á árinu. Samkvæmt fjárhagsáætlun með viðaukum var gert ráð fyrir rekstrargjöldum sem næmu 1.242,3 m.kr. Laun og launatengd gjöld námu 798,5 m.kr. sem er 41,2 m.kr. hærra en áætlun gerði ráð fyrir en á móti er annar rekstrarkostnaður 46,4 m.kr. lægri en áætlun gerði ráð fyrir.
Samkvæmt sjóðsstreymisyfirliti ársins 2021 nam veltufé frá rekstri 33,0 m.kr. og handbært fé frá rekstri 31,7 m.kr. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum nam 74,3 m.kr. á árinu.
Eigið fé í árslok nam 278,1 m.kr. fyrir A og B hluta samanborið við 291,7 millj.kr. árið áður.
Eiginfjárhlutfall nemur 26,0 % í árslok. Skuldahlutfall sveitarfélagsins hækkar, er 60,7 % í A og B hluta í árslok 2021 en var 53,5 % í árslok 2020.
Sveitarstjórn bókaði eftirfarandi á fundinum:
Ársreikningur 2021 kemur mun betur út en áætlun gerði ráð fyrir eða 83,2 m.kr. hagstæðari en áætlað var. Það skýrist fyrst og fremst af hærri tekjum og aðhaldi í rekstri. Meðvitað voru tekjur varlega áætlaðar fyrir árið 2021 vegna óvissu um hvað Covid faraldurinn gæti haft mikil áhrif en á sama tíma var stefnan að halda þjónustu óbreyttri, líkt og skólastarfsemi og helstu framkvæmdum gangandi. Launakostnaður í fræðslumálum fór þar af leiðandi fram úr áætlun en á móti var annar rekstrarkostnaður undir áætlun og þar með voru heildarútgjöld 2021 innan áætlunar. Áskoranir hafa verið margar síðast liðið ár og því afar ánægjulegt að ná þessum árangri. Það að lækka rekstrartapið svo um munar léttir rekstur sameinaðs sveitarfélags og eykur tækifæri til sóknar.
Einnig þakkaði sveitarstjórn starfsfólki sveitarfélagsins fyrir góð störf á erfiðum og krefjandi tímum.
Seinni umræða ársreiknings fer fram 12. maí sem er síðasti fundur sveitarstjórnar á þessu kjörtímabili.
Sveitarstjóri