Auglýsing um nýtingu lands og landsréttinda innan þjóðlendu

Þingeyjarsveit auglýsir eftir aðilum til að nýta lóð innan þjóðlendu í Þingeyjarsveit. Lóðin sem um ræðir eru 52.172 m2 í Réttartorfu. Þar fyrir er skáli í einkaeigu var byggður 1995. Aðrir umsækjendur en núverandi eigendur verða því að gera ráð fyrir að þurfa að leysa til sín skálana ef af úthlutun lóðar verður.

Svæðið er í þjóðlendu er nefnist Selland og afréttarland Skútustaða. Umrætt svæði er þjóðlenda skv. úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 1/2007, Mývatnsöræfi og Ódáðahraun. Í ljósi þess þarf leyfi Þingeyjarsveitar til að nýta land og landsréttindi á svæðinu, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlenda og afrétta. Jafnframt þarf samþykki forsætisráðuneytisins þar sem umrædd nýting á að vara lengur en til eins árs, sbr. 2. mgr. 3. gr. sömu laga.

Ekki liggur fyrir deiliskipulag.

Skilmálar sem einkum verður litið til við ákvörðun um leyfisveitingu á umræddu svæði eru eftirfarandi. Ekki skal litið svo á að röðun þeirra gefi til kynna vægi einstakra skilmála innbyrðis:

  • Þekking viðkomandi aðila á þessu svæði
  • þekking og reynsla viðkomandi aðila af rekstri gistiþjónustu, s.s. gistihúsa á miðhálendinu og starfsemi afréttarskála
  • frágangur mannvirkja og annarrar starfsemi. Sveitarfélagið mun sérstaklega líta til þess að frágangur verði með þeim hætti að samræmist landslagi vel og stingi ekki í stúf við umhverfið að öðru leyti
  • lóðarhafi skal gæta þess að landið umhverfis skálann spillist ekki af mikilli umferð.

Upplýsingar um svæðið má nálgast á heimasíðu sveitarfélagsins www.thingeyjarsveit.is.

Áhugasamir aðilar vinsamlegast sendið tillögu að notkun á umræddu svæði til Þingeyjarsveitar eigi síðar en 9. ágúst 2022.
thingeyjarsveit@thingeyjarsveit.is