Á 30. fundi sveitastjórnar Þingeyjarsveitar var kosið til eins árs í Byggðarráð Þingeyjarsveitar.
Með breytingum á samþykkt um stjórn og fundarsköp Þingeyjarssveitar verður byggðarráð ein af fastanefndum sveitarfélagsins. Byggðarráð mun funda tvisvar í mánuði, fyrsta og þriðja fimmtudag hvers mánaðar.
Byggðarráð hefur að meginstefnu það hlutverk að undirbúa ákvarðanir sveitarstjórnar og hafa eftirlit með því að ákvarðanir sem hún tekur séu framkvæmdar. Byggðarráð hefur því almennt ekki það meginhlutverk að taka ákvarðanir fyrir hönd sveitarstjórnarinnar, fremur ber að líta á byggðarráð sem framkvæmdanefnd fyrir sveitarstjórnina.
Í sumarleyfi sveitarstjórnar fer byggðarráð með sömu heimildir og sveitarstjórn hefur ella sbr. 35 gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Með tilkomu byggðarráðs mun sveitarstjórn funda einu sinni í mánuði fjórða fimmtudag hvers mánaðar.
Fyrsti fundur byggðarráðs Þingeyjarsveitar verður 27. júlí nk.