Hæfileikabúntin leynast víða um sveitina, eitt þeirra er Ástríður Gríma Ásgrímsdóttir, 11 ára nemandi í 5. bekk í Þingeyjarskóla. Handrit hennar Skrítna kaffiævintýrið sigraði Sögur í flokki stuttmyndahandrita.
Sögur eru stórt samstarfsverkefni margra stofnana sem allar vinna að barnamenningu og sköpun með því að veita börnum á aldrinum 6-12 ára tækifæri að spreyta sig á sögugerð. Sögur geta birst í formi leikrita, laga og texta, stuttmynda og smásagna svo dæmi séu tekin, allt eftir því hvað heillar hverju sinni. Markmið verkefnisins er að auka áhuga barna á sögugerð á fjölbreyttu formi, sýna börnum að hverju hugmyndir þeirra geta orðið og upphefja þannig barnamenningu á Íslandi.
Stuttmyndin hennar Ástu fjallar um stelpu sem segir frá furðulegum atburðum sem gerast í skólanum þegar kennarinn hennar drekkur grunsamlegt kaffi. Ásta var til í að svara nokkrum spurningum um þetta spennandi verkefni fyrir okkur!
Hvernig datt þér þessi saga í hug?
„Mig langaði að skrifa handrit fyrir keppnina og var búin að horfa á nokkrar verðlaunastuttmyndir í Sögum á RÚV og var að reyna að láta mér detta eitthvað í hug. Í einu viðtali sögðust stelpur hafa beðið vini sína um að segja eitt orð til að láta sér detta eitthvað í hug. Ég bað því mömmu um að segja þrjú orð svo ég gæti fengið einhverja hugmynd. Orðin sem mamma sagði voru kaffi, ævintýri og fyndið. Þannig að ég reyndi að skrifa fyndið ævintýri um kaffi“ segir Ásta
Er flókið að skrifa handrit?
„Smá. Fyrst skrifaði ég smásögu á blað. Svo þurfti ég að kynna mér hvernig maður skrifar handrit. Mamma hjálpaði mér að gúggla hvernig maður gerir það og hvernig maður býr til senur og lætur fólk tala. Maður þarf að lýsa hvar myndin er að gerast, hvort maður sé úti eða inni. Svo þarf maður að skrifa nafnið á þeim sem talar og þar undir hvað persónan er að segja“.
Sigurvegarar í hverjum flokki fá boð í meistarabúðir þar sem þau fá að fræðast og fínpússa handritin með hjálp fagfólks. Ástríður segir hafa verið mjög gaman í búðunum; „ Öll sem unnu keppnina voru mætt, sum voru búin að skrifa smásögu, sum voru búin að skrifa lög, svo stuttmyndir og leikrit. Fyrst fórum við í leiki og svo fórum við í smá fræðslu og svo í ritsmiðjur. Við sem skrifuðum handrit fyrir stuttmyndir og leikrit vorum saman í smiðju með Ylfu Ösp Áskelsdóttur. Hún er leikstjóri og vinnur hjá Borgarleikhúsinu“.
Ástríður Gríma var viðstödd þegar RÚV tók stuttmyndina hennar upp í Melaskóla í Reykjavík og segir það hafa verið magnaða upplifun; „Það var ótrúlega gaman að sjá eitthvað sem ég hafði ímyndað mér og skáldað upp verða að veruleika. Það kom mér á óvart hvað þetta var líkt því sem ég hafði séð fyrir mér. Það var mjög gaman að hitta leikarana, sérstaklega Brynju sem leikur Kolbrúnu, aðalpersónuna. Hún er mjög góð leikkona. Það kom mér líka á óvart hversu oft hver sena er tekin upp. Það þarf að leika sama atriðið aftur og aftur“.
Ásta segist vel geta hugsað sér að vinna við það að skrifa sögur enda sé það skemmtilegt. Þá sé ef til vill hægt að vera meira heima hjá sér og nota hugmyndaflugið - kannski smá eins og að leika sér í vinnunni.
Hvað hefur verkefnið Sögur gert fyrir þig?
„Þegar ég tók þátt fannst mér bara gaman að skrifa þetta, ég hélt ekki að ég myndi vinna. Ég hugsaði líka þegar mér fannst það erfitt að ég ætti kannski bara að geyma það og taka þátt á næsta ári. En núna veit ég að maður getur unnið ef maður tekur þátt og ég er glöð að ég gafst ekki upp. Mér finnst mjög gaman að RÚV gefi manni séns að fá að vera rithöfundur. Það eru ekki öll börn sem fá svona tækifæri. Það hefur gefið mér sjálfstraust, núna veit ég að handritið mitt er skemmtilegt. Mig langar að skrifa fleiri handrit í framtíðinni“.
Við þökkum Ástríði Grímu kærlega fyrir spjallið og innsýnina í heim rithöfunds og óskum henni kærlega til hamingju!