Fulltrúar Þingeyjarsveitar sóttu Fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í síðustu viku. Þar var m.a. fjallað um stöðu og áskoranir í rekstri sveitarfélaga, efnahagslegar áskoranir og áskoranir við uppbyggingu og viðhald innviða. Einnig var rætt um tækifæri til uppbyggingar og hvernig sveitarfélög geta nýtt sér tæknina til framfara. Allt eru þetta mikilvæg málefni sem eru daglega inni á borði hjá starfsfólki sveitarfélagsins.
Ferðin var að sjálfsögðu afar vel nýtt og sátu fulltrúar okkar m.a. aðalfund Orkusveitarfélaga, aðalfund Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum og ársfund Jöfnunarsjóðs. Sérstaklega má segja frá fundi sem þau áttu með Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra og Guðmundi Inga Guðbrandssyni félags- og vinnumarkaðsráðherra. Þar kynntu þau hugmynd að þróunarverkefni um samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu í dreifðum byggðum sem vinna á í samstarfi við HSN. Með verkefninu ætla Þingeyjarsveit og HSN að skoða möguleika á samstarfi um eflingu heilsugæslu í Þingeyjarsveit sem og samþættingu í félags- og heimaþjónustu með auknu samstarfi þeirra á milli. Þetta er spennandi þróunarverkefni þar sem áhersla verður á eflingu þjónustu við eldra fólk í Þingeyjarsveit. Verkefnið fékk afar jákvæðar undirtektir hjá ráðherrum sem eru spenntir fyrir framhaldinu.
Suður ferðin var ákaflega vel heppnuð og fólkið okkar kom uppfullt af fróðleik aftur heim!