Fundað með Rarik vegna rafmagnstruflana

Áhrifasvæði rafmagnstruflunar 2. október 2024
Áhrifasvæði rafmagnstruflunar 2. október 2024

Fulltrúar sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar hafa fundað með Rarik vegna víðtækra rafmagnstruflana sem urðu þann 2. okóber sl. Mikið tjón varð í Mývatnssveit vegna yfirspennu sem eyðilagði rafmagnsbúnað og tæki.

Á fundi með fulltúrum Rarik kom fram að augnabliksgildi spennu og tíðni fóru út fyrir öll mörk sem gætu hæglega valdið tjóni á raftækjum og öðrum rafbúnaði viðskiptavina Rarik. Rarik fundaði með Landsneti 8. október sl. og þá var ákveðið að endurskoða og samræma varnarprinsipp í aðveitustöðinni í Reykjahlíð, bæði á 11 kV Landsnetsrofa sem er staðsettur í Kröflu og á innkomandi rofa Rarik með það að markmiði að minnka áhrif á viðskiptavini Rarik þegar svona sveiflur ganga yfir landskerfið. Einnig þarf að endurskoða stillingar á spennuvörnum í öðrum aðveitustöðvum á þessu svæði þar sem Norðurausturhornið virðist vera viðkvæmasti hluti landskerfisins. Lögðu fulltrúar Þingeyjarsveitar mikla áherslu á mikilvægi þess að tryggt yrði að svona atburður myndi ekki endurtaka sig.

Rétt er að benda á frétt hér á vefnum þar sem eru leiðbeiningar um tilkynningu á tjóni til Rarik. Einnig er rétt að benda á að tryggingafélag Landsnets, Sjóvá mun gera upp þau tjón sem koma til uppgjörs. Ef upp kemur ágreiningur um uppgjör á milli Sjóvá og viðskiptavina Rarik má beina bótamáli til Orkustofnunar sem sker úr um slíkan ágreining.