Mikill árangur af auknu kynningarstarfi

Um síðustu áramót gerðu Þingeyjarsveit og Mývatnsstofa samstarfssamning þar sem Mývatnsstofa tók að sér kynningarstarf fyrir sveitarfélagið. Í samningnum er m.a. kveðið á um aukna upplýsingamiðlun til íbúa.  Ávinningurinn af samstarfinu hefur þegar sannað sig  og hefur sýnileiki Þingeyjarsveitar aukist verulega. Þetta hefur ekki aðeins skapað jákvæða ímynd fyrir svæðið, heldur einnig stuðlað að betra upplýsingaflæði til íbúa sveitarfélagsins.

Aukin umferð á heimasíðu Þingeyjarsveitar og fjölgun fylgjenda á samfélagsmiðlum ásamt reglulegri fréttaskrifum þýðir að íbúar og aðrir hagsmunaaðilar fá nú mun meiri og reglulegri upplýsingar um það sem er að gerast í sveitarfélaginu. Samstarfið hefur gert sveitarfélaginu kleift að miðla upplýsingum um viðburði, þjónustu og annað sem varðar daglegt líf íbúa betur en áður. Þá hefur fréttabréfið slegið í gegn og mörg hundruð lesningar eru á hverju fréttabréfi. 

„Aukin miðlun frétta og upplýsinga um starfsemi sveitarfélagsins gerir það að verkum að íbúar eru betur upplýstir um það sem er verið að vinna að hverju sinni“ segir Ragnheiður Jóna, sveitarstjóri. Árangurinn af samstarfi við Mývatnsstofu lofar góðu og  gefur vonir um enn frekari sýnileika á komandi misserum.

Mývatnsstofa hefur óskað eftir endurskoðun á samstarfssamningi í ljósi  þeirrar reynslu sem komin er á samstarfið. Sú beiðni var tekin fyrir á sveitarstjórnarfundi í síðastliðinni viku þar sem henni var vísað áfram til fjárhagsáætlunargerðar. 

Við leyfum tölunum að tala og sýnum dæmi um ávinning. Hér má sjá umferð um heimasíðu Þingeyjarsveitar fyrstu sex mánuði ársins 2024, eftir að Mývatnsstofa tók við kynningarkeflinu, saman borið við heimsóknir sömu mánuði árið 2023. Heimsóknir stakra gesta eru í takt við þessa fjölgun, það er, það eru fleiri einstaklingar sem skoða heimasíðuna en áður.