Fara í efni

Eru eignarmörk þinnar jarðar rétt?

Fyrr í þessum mánuði stóð HMS (Húsnæðis- og mannvirkjastofnun) fyrir opnum fundi undir yfirskriftinni Hver á Ísland? Eignarhald og afmörkun jarða. Á fundinum var ýtt úr vör verkefni sem felur í sér að áætla legu eignamarka og ná utan um eignarhald jarða á Íslandi.

Undanfarin ár hefur verið mikil umræða um eignarhald lands á Íslandi en skráning fasteigna eins og henni hefur verið háttað fram til þessa í fasteignaskrá hefur ekki getað gefið skýr svör um stærðir eigna og afmörkun þeirra.

HMS vinnur að uppbyggingu landeignaskrár svo til verði heildstætt upplýsingakerfi um eignarhald lands á Íslandi. Á fundinum benti Tryggvi Már Ingvarsson, framkvæmdastjóri fasteignasviðs stofnunarinnar, á að um 60% af flatarmáli landsins sé ókortlagt en þar vega ókortlagðar jarðir þyngst. Það geri það í raun ómögulegt að svara því hver eigi Ísland. Þessu ætli HMS að breyta en almennileg gögn þurfi að liggja fyrir um afmörkun eignarhalds á landi svo hægt sé að setja fram skýra stefnu um eignarhald, skipulag og nýtingu landeigna.

„Þetta hefur líka heilmikið gildi fyrir landeigendurna sjálfa“, segir Tryggvi. „Betri upplýsingar um afmörkun eigna og samspil þeirra við skipulag ætti að auðvelda fjármögnun verkefna fyrir landeigendur og bændur. Slíkt gæti bætt gæðastýringu í ræktun og ræktaráætlanir og styrki og bætur þeim tengdum, s.s. tryggingabætur og styrki fyrir skóga, tún og endurheimt votlendis. Einnig styrkir kortlagning markað með land og að nýting lands sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélaga,“

Búið að áætla um 1.730 jarðir í landeignaskránni, allt frá Hrútafjarðará að Skjálfandafljóti. Þá hafa um 4.000 einstaklingar og lögaðilar hafa fengið bréf í gegnum island.is um að eignamörk jarða hafi verið áætluð í landeignaskrá HMS. Við áætlun eignamarka er stuðst við opinber gögn, til dæmis landamerkjalýsingar, þinglýst skjöl, örnefni og loftmyndir.

Landeigendur eru hvattir til þess að kynna sér bréfið á island.is og hafa frest til 14. mars að gera athugasemdir.

Hlekkur á umfjöllun um fundinn: HMS kortleggur eignarhald og afmörkun jarða | Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ný vefsjá landeignaskrár er nú opin á www.landeignaskra.hms.is.

Nánari upplýsingar um verkefnið: Áætlun eignamarka | Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Getum við bætt efni þessarar síðu?