Eitt af verkefnum Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra (SSNE) um þessar mundir er að laða að fjárfestingar í landshlutann og fjölga með því atvinnuskapandi verkefnum í sem flestum sveitarfélögum. Díanna Jóhannsdóttir hjá SSNE kom til fundar við atvinnu- og nýsköpunarnefnd í september og kynnti verkefnið og tækifærin sem felast í þátttöku. Nefndin var einróma um að taka þátt í verkefninu og hvatti sveitarstjórn til að samþykkja það.
Í verkefninu er stefnt að því að sveitarfélög innan SSNE sameinist um stefnu í markaðssetningu landshlutans, þar sem áhersla verður lögð á sérstöðu hvers sveitarfélags fyrir sig, þannig að fjárfestar geti gert sér sem besta grein fyrir hvar hagsmunir þeirra og sveitarfélaga fara saman, sem og að ekki verði um „óvægna samkeppni“ að ræða innan landshlutans.
Nú nýlega var haldin vinnustofa á vegum SSNE í Skjólbrekku þar sem fulltrúar sveitarfélagsins og SSNE komu saman til að ræða málin og reyna að greina fjárfestingartækifæri í Þingeyjarsveit. Fundurinn var afar góður. Miklar umræður sköpuðust og greinilegt að það eru talin tækifæri á ýmsum sviðum í Þingeyjarsveit. Ýmsar hugmyndir komu upp; ylræktun, fiskeldi, frostþurrkun, kornþurrkun, hótelbyggingar og fleira og fleira. Nú er það í höndum verkefnastjóra hjá SSNE að greina það sem fram kom á fundinum og það verður spennandi að sjá hverjar niðurstöður verða.