Fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar 2022-2025 samþykkt á 310. fundi sveitarstjórnar

Fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar 2022-2025 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 9. desember síðastliðinn. Undirbúningur fjárhagsáætlunar var nokkuð óhefðbundinn þetta árið vegna sameiningar sveitarfélagsins við Skútustaðahrepp. Um mitt næsta ár munu fjárhagsáætlanir beggja sveitarfélaga renna saman í eina áætlun þegar formleg sameining á sér stað. Þriggja ára áætlunin tekur því mið af sameiningu sveitarfélaganna og þeim tækifærum sem felast í henni.

Í fjárhagsáætlun 2022-2025 er rekstrarniðurstaða samstæðunnar jákvæð öll árin og langtímalán lækka. Sameiningarframlög Jöfnunarsjóðs eru áætluð um 340 millj.kr. og koma til greiðslu á sjö ára tímabili. Þau framlög hafa töluverð áhrif á jákvæða rekstrarniðurstöðu í áætluninni.

Gjaldskrárbreytingar eru varfærnar, engar gjaldskrár hækka umfram verðlagshækkun og aðrar eru óbreyttar. Áfram verður boðið uppá fríar máltíðir fyrir nemendur í grunn- og leikskólum sem og frí námsgögn. Árlegur frístundastyrkur barna og ungmenna verður óbreyttur eða 15.000 kr.

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 eru heildartekjur A og B hluta 1.456 m.kr. sem er 238 m.kr. hærra en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun fyrir árið 2021. Gert er ráð fyrir hærri útsvarstekjum árið 2022 en þær voru varlega áætlaðar árið 2021, en ljóst að þær verða hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Einnig er gert ráð fyrir hærri framlögum úr Jöfnunarsjóði fyrir árið 2022 vegna sameiningar við Skútustaðahrepp en áætlað sameiningarframlag næsta árs er um 119 m.kr.

Rekstrargjöld A og B hluta árið 2022 eru áætluð 1.314 m.kr. sem er hækkun um 67 m.kr. miðað við fjárhagsáætlun 2021. Þar ber helst að nefna almenna verðlagshækkun á þjónustu og þegar umsamdar launahækkanir.

Rekstrarniðurstaða A og B hluta eftir afskriftir er jákvæð um 50 m.kr. árið 2022 og er töluverður viðsnúningur frá fyrra ári þar sem gert var ráð fyrir rekstrarhalla uppá 116,8 m.kr.

Áætlaðar fjárfestingar A og B hluta nema 178 m.kr. á árinu 2022 og lántaka til fjárfestinga samtals 140 m.kr.

Helstu fjárfestingar eru bygging hjúkrunarheimilis á Húsavík, framkvæmdir í Seiglu vegna flutnings skrifstofu og malbikunarframkvæmdir og bílaplan við Þingeyjarskóla.

Fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar 2022-2025 var samþykkt samhljóða í sveitarstjórn.

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.