Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum þann 22. apríl s.l. tillögur fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, innviðaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, matvælaráðuneytis og umhverfis, orku- og loftlagsráðuneytis um sértækar aðgerðir af hálfu ríkisins vegna skriðufalla í Útkinn.
Annars vegar var ákveðið að matvælaráðuneytið óski eftir allt að 130 m.kr. framlagi úr almennum varasjóði fjárlaga sem veitt verði til Bjargráðasjóð. Fjármagninu verði varið til að mæta kostnaði af völdum skriðufallanna.
Hins vegar var ákveðið að innviðaráðuneytið óski eftir 30 m.kr. framlagi úr almennum varasjóði fjárlaga sem veitt verði til Þingeyjarsveitar. Fjármagnið standi straum af verkefnisstjórn vegna hreinsunar og almennum uppgræðslu- og landgræðsluverkefnum á svæðinu í samstarfi við heimamenn.
Framundan er ærið verkefni og því er þessi fjárveiting afar mikilvæg svo endurbætur og uppbygging geti gengið sem best.
Sveitarstjórn tók erindið fyrir á fundi sínum í dag, 28. apríl og bókaði eftirfarandi:
Sveitarstjórn þakkar ríkisstjórninni fyrir framlag til uppbyggingar vegna skriðufallanna í Útkinn. Styrkurinn skiptir miklu máli fyrir ábúendur á svæðinu og fyrir það gríðarstóra verkefni sem framundan er.
Þá hefur allur undirbúningur og samskipti sveitarfélagsins við fulltrúa ráðuneyta verið til fyrirmyndar og það ber að þakka. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að ráða verkefnastjóra í samráði við ábúendur og koma uppbyggingarverkefninu af stað.
Jóna Björg tók ekki þátt í afgreiðslu þessa liðar en óskar eftir að fá eftirfarandi bókað:
Ábúendur jarðanna í Kinn sem urðu fyrir skriðunum síðastliðið haust vilja koma á framfæri þökkum vegna þess mikla stuðnings sem sveitarfélagið hefur veitt í framhaldi af atburðunum. Sérstaklega þakka ábúendur sveitarstjóra fyrir þá miklu vinnu sem hún hefur unnið vegna hamfaranna.