Fjölmennur íbúafundur var í Skjólbrekku í gær þar sem fulltrúar RARIK og Landsnets fóru yfir atburðarásina sem varð þann 2. október sl. sem olli miklu tjóni hjá íbúum í Mývatnssveit.
Á fundinum var m.a. farið var yfir fyrirkomulag á afgreiðslu tjónamála og fyrirspurnum frá íbúum svarað. Á fundinum kom ekki fram með skýrum hætti hvernig staðið verði að fyrirkomulagi greiðslna vegna tjóns sem íbúar urðu fyrir en RARIK og Landsnet hafa viðurkennt bótaskyldu vegna atburðarins og fengið Sjóvá til að umsýsla tjónstilkynningar. Mikillar óánægju gætti hjá íbúum vegna óljósra upplýsinga um hvernig staðið yrði að uppgjöri vegna þess tjóns sem íbúar og fyrirtæki í sveitarfélaginu hafa orðið fyrir.
Sveitarfélagið vinnur nú að því að afla frekari upplýsinga um hvernig að uppgjöri verður staðið og mun koma upplýsingum á framfæri við íbúa, annaðhvort á heimasíðu sveitarfélagsins eða á opnum fundi með íbúum.