Ýmislegt fellur til á þessum árstíma sem vekur spurningar um flokkun.
Jóla- og gjafapappír
Hefðbundni pappír má fara í bláu tunnuna en pakkaböndin og annað skraut þarf að taka af og fer það í almennt sorp. Gott ráð er að athuga hvort hægt sé að rífa jólapappírinn þá flokkast hann sem pappír en ef ekki þá fer hann í grænu tunnuna (plast). Pappír með glimmeri og málmáferð/húð er yfirleitt það mikið unninn eða blandaður glans og glimmer að hann er ekki nothæfur til endurvinnslu.
Pakkaböndin er hægt að geyma til næsta árs og endurnota - ef þið viljið losa ykkur við þau þá bendum við á að setja hann með glanspappírnum í almennt sorp. Þetta fer ekki með plastinu.
Jólakort, umslög og merkimiðar úr pappír fara í endurvinnslu með pappír.
Rafhlöður- gámasvæðið spilliefnahlutann
Í rafhlöðum og ýmsum raftækjum eru spilliefni sem eru hættuleg heilsu okkar og náttúrunni. Það er því afar brýnt að rafhlöður fari ekki beint í ruslið heldur í rétta úrvinnslu til viðurkenndra aðila sem hafa þekkingu til að farga eða eyða slíku. Raftæki skal fara með á gámasvæðið eða í spilliefnamóttöku.
Öll raftæki, leikföng, ljósaséríur, ljósaperur og annað slíkt á að skila á gámasvæðið ekki í almennt sorp eða í endurvinnslutunnurnar.
Kertaafgangar og sprittkertabikarar
Hér er einfalt og skemmtilegt ráð: Takið alla kertaafganga og setjið þá í útikertið og lengið líftíma þess. Þráðurinn í útikertum er sterkur og endingagóður og þess vegna er hægt að bæta kertastubbum útí og ljósið varir lengur.
Á gámasvæðinu eru þartilgerðar fötur fyrir kertaafganga en álbikarar undan sprittkertum fara hinsvegar með málmum og má setja í plastpoka og ofaní grænu tunnuna. Fjarlægið pinna og kertavax fyrst úr bikurunum.
Á Norðurlandi eru kertaafgangar bræddir og notaðir í útikerti sem framleidd eru hjá Plastiðjunni.
Ál og aðrir málmar
Ál og aðra málma má setja í grænu endurvinnslutunnuna og starfsmenn Terra sjá svo um að flokka. Ál er gott dæmi um mikilvægi flokkunar og endurvinnslu. Endurunnið ál er alveg jafn gott og nýtt ál, en mun umhverfisvænna.
Með því að flokka og endurvinna ál sparast um 95% af þeirri orku sem annars hefði farið í frumframleiðslu á sama magni af áli. Auk þess sparast allt báxítið, flutningur á því, vítissódi og önnur efni, mun minna af losnar af koltvísýringi.
Þess vegna á allt ál að fara beint í endurvinnslutunnuna
Þar sem tunnurnar fyllast fljótt á þessum árstíma og þá sérstaklega svarta tunnan, gæti reynst nauðsynlegt að koma með jólapappírinn, pakkaskrautið, pappaumbúðir og annað á gámasvæðið.
Að lokum má ekki gleyma jólatrjánum, lifandi tré er hægt að fara með á gámasvæðið og skila í gám fyrir lífrænan úrgang.