Friðlýsing menningarlandslags Hofstaða staðfest

Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur staðfest friðlýsingu menningarlandslags Hofstaða í Þingeyjarsveit, en friðlýsingin var gerð að tillögu Minjastofnunar Íslands og tekur til menningarlandslags heimatúns Hofstaða. Aldursfriðaðar og friðlýstar menningarminjar á Hofstöðum og umhverfi þeirra mynda hið friðlýsta menningarlandslag. Ef áður óþekktar minjar finnast innan svæðisins falla þær undir skilmála friðlýsingarinnar. Uppistandandi íbúðarhús og útihús á jörðinni eru undanskilin friðlýsingunni.

Í rökstuðningi Minjastofnunar Íslands með friðlýsingartillögu kemur fram mikilvægi þess að vernda þá minjaheild sem menningar- og búsetulandslag á Hofstöðum mynda bæði vegna einstakra fornleifa en einnig að rannsóknarsaga svæðisins sé einstök. Á Hofstöðum eru minjar stórbýlis og trúarmiðstöðvar frá 10. öld, þ.m.t. stór skáli, merki um heiðin blót, kirkja og kirkjugarður. Skálinn er með stærstu víkingaaldarbyggingum sem grafnar hafa verið upp á Íslandi.

Fyrsti rannsóknarleiðangurinn var farinn til Hofstaða árið 1877 þegar Kristian Kålund lýsti skálanum í riti sínu um merka sögustaði á Íslandi og sama gerði Brynjúlfur Jónsson sem var á Hofstöðum sumarið 1900 og lýsti skálatóftinni í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags. Sumarið 1908 var skálatóftin rannsökuð í einum af fyrstu meiriháttar vísindalegu fornleifauppgröftum á Íslandi af Daniel Bruun og Finni Jónssyni. Helstu niðurstöður þeirra voru að þar væri stór veislusalur með hofi við norðurendann og ruslagryfju en óvanaleg stærð skálans vakti athygli langt út fyrir landsteinana. Næsta fornleifarannsókn á Hofstöðum var árið 1965 þegar Olaf Olsen gróf í ruslagryfjuna og komst að þeirri niðurstöðu að þar hefði farið fram matseld fyrir blótveislurnar sem haldnar voru í skálanum. Upp úr 1990 hófst 30 ára rannsóknarsaga Fornleifastofnunar Íslands ses. á svæðinu. Helstu niðurstöður þeirra eru að skálinn var í notkun frá um 940-1030 og eru sterkar vísbendingar um sérstaka nýtingu skálans. Í framhaldi hófst rannsókn á kirkju og kirkjugarði en elsta kirkjan á Hofstöðum var reist seint á 10 öld en hætt var að jarða í kirkjugarðinum um 1300. Norðan við túnin á Hofstöðum fannst árið 2016 skáli byggður fyrir 940, og hafa þar komið í ljós útihús og mögulega kuml. Hluti minjanna er enn sýnilegur í túni Hofstaða, veisluskálinn er mjög greinilegur, en einnig má sjá kirkjugarð, kirkjutóft, bæjarhól, túngarða og fleiri minjar.

Á Hofstöðum er starfrækt vettvangsakademía á sviði fornleifafræði, minjaverndar og menningarferðaþjónustu. Rannsóknir verða áfram stundaðar á svæðinu og munu bæta við þekkingu á sögu staðarins og sveitarinnar í heild.