Á dögunum fengu skrifstofa og áhaldahús Þingeyjarsveitar viðurkenningu fyrir að klára fyrsta skrefið af fimm í verkefninu Grænu skrefin. Grænu skrefin miða að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi stofnanna og efla umhverfismeðvitund starfsmanna. Gera þarf og klára verkefni sem koma í sérstökum gátlista til að ljúka hverju skrefi. Markmiðið er að klára fjögur skref og komast á það fimmta (sem er eilífðarskref) til þess að fara í gegnum umhverfisvottun skv. ISO14001. SSNE heldur utan um verkefnið á Norðausturlandi og fylgist með að þátttakendur séu að fylgja eftir þeim verkefnum sem nauðsynlegt er að klára fyrir hvert skref.
,,Með samhentu átaki allra starfsmanna þessara tveggja stofnana var þetta mögulegt. Segja má að hver einasti starfsmaður hafi lagt sitt af mörkum til að ná þessum árangri, sem tókst á mettíma. Nú færum við okkur uppá næsta skref og tökumst á við verkefnin þar með jákvæðni að leiðarljósi eins og gert var með fyrsta skrefið“ segir Ingimar Ingimarsson sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs.