Myrra Leifsdóttir hefur verið ráðin í stöðu verkefnastjóra æskulýðs-, tómstunda- og menningarmála.
Myrra hefur fjölbreyttan bakgrunn á sviði sjálfbærni og menningar. Hún hefur verið sjálfstætt starfandi í menningargeiranum og hefur unnið við viðburðarstjórnun og samskipti hjá Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands. Hún hefur haldið fyrirlestra og vinnustofur m.a. um skapandi greinar og sjálfbærni, kerfishugsun, samkennd og núvitund. Myrra hefur stundað rannsóknir á sviði náttúruhugvísinda og starfað sem stundakennari á verkfræði- og náttúruvísindasviði við Háskóla Íslands. Þá hefur hún sinnt myndlistarkennslu í grunn- og leikskóla. Hún hefur lokið BA og MA gráðum í myndlist og er að ljúka MSc gráðu í Umhverfis og auðlindafræði auk CCT kennarnámi hjá Compassion Institute þar sem hún öðlast réttindi til að kenna gagnreynd samkenndarnámskeið sem hafa verið þróuð við Stanford Háskóla. Myrra hefur sérstakan áhuga á hvernig samfélagsleg velsæld, menning, andleg heilsa og umhverfi tvinnast saman við sjálfbærni og hefur markvisst sótt námskeið og aflað sér þekkingu á þessum sviðum á undanförnum árum.
Myrra mun sinna verkefnum sem falla undir æskulýðs-, tómstunda- og menningarmál, m.a. stýra félagsmiðstöð unglinga í Reykjahlíð, hafa yfirumsjón með verkefninu ,,Heilsueflandi samfélag” og vera starfsmaður íþrótta-, tómstunda- og menningarnefndar.
Við bjóðum Myrru velkomna til starfa hjá Þingeyjarsveit.