Gjaldskrárbreytingar 2023

Sveitarstjórn samþykkti samhljóða á fundi sínum 14. desember sl. gjaldskrár fyrir árið 2023. Almennt taka gjaldskrár sveitarfélagsins 4,9% verðlagshækkunum sem er sama hækkun og gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.

Við ákvörðun gjaldskráa var markmið sveitarstjórnar að samræma gjaldskrár eldri sveitarfélaganna sér í lagi gjaldskrár lögbundinnar þjónustu sveitarfélaga.

  1. Gjaldskrár íþróttamiðstöðva

Gjaldskrár þeirra verða ekki samræmdar að þessu sinni enda eru stöðvarnar ólíkar að uppbyggingu og rekstri. Boðið verður upp á árskort sem gilda í öll íþróttamannvirki sveitarfélagsins. Gjaldskrár taka ekki verðlagshækkunum, en stakir miðar í Sundlaugina á Laugum hækka úr 900 kr. í 1.000 kr. Verðskrá ÍMS lækkar verulega.

Sem heilsueflandi og barnvænt samfélag fá öll börn á grunnskólaaldri búsett í sveitarfélaginu áfram gjaldfrjálsan aðgang að íþróttamiðstöðvunum og gestir sveitarfélagsins innan þessa aldursmarka, 6-17 ára, greiða áfram vægt gjald. 65 ára og eldri og öryrkjar í sveitarfélaginu fá gjaldfrjálsan aðgang eftir sem áður.

 

  1. Bókasöfn

Gjaldskrár bókasafna verða samræmdar og öll útlán án endurgjalds.

 

  1. Mötuneyti grunn- og leikskóla

Skólamáltíðir verði áfram gjaldfrjálsar en kostnaður starfsmanna af máltíðum tekur mið af gjaldskrá gömlu Þingeyjarsveitar sem hækkar um 4,9% í samræmi við þróun verðlags.

 

  1. Félagsleg heimaþjónusta

Gjaldskrá fyrir félagslega heimaþjónustu verður samræmd. Miðað er við gjaldskrá Þingeyjarsveitar fyrir sameiningu, en tekjuviðmið eru þau sömu og voru hjá Skútustaðahreppi. Gjaldskráin tekur breytingum skv. vísitölu neysluverðs 1.1.2023.

 

  1. Leikskólar

Gjaldskrá leikskóla verður samræmd og stuðst er við gjaldskrá Þingeyjarsveitar fyrir sameiningu sem tekur verðlagshækkun um 4,9%.

 

  1. Tónlistarskólar

Gjaldskrá tónlistarskólanna verður samræmd og tekið mið af gjaldskrá gömlu Þingeyjarsveitar sem tekur verðlagshækkun um 4,9%.

 

  1. Félagsheimili

Verðlagshækkun um 4,9%. Gjaldskrár félagsheimila verða ekki samræmdar enda er aðstaða með mismunandi hætti á milli félagsheimila. Bætt er við sérstöku gjaldi fyrir barnaafmæli.

 

  1. Hunda- og kattahald

Miðað er við gjaldskrá Þingeyjarsveitar fyrir sameiningu með verðlagsbreytingum, 4,9% hækkun.

 

  1. Sorphirða og förgun úrgangs

Sorphirðugjald heimila verði kr. 61.971 og sorphirðugjald frístundahúsa verði kr. 34.084. Hér er um töluverða breytingu að ræða í kjölfar laga 103/2021 sem tóku gildi 1.1.2023. Lögin kveða á um að sveitarfélögum beri að tryggja að greitt sé í samræmi við magn og tegund úrgangs sem til fellur hjá viðkomandi úrgangshafa.

  1. Brunavarnir

Verðlagshækkun um 4,9%.

 

  1. Hitaveitur

Gjaldskrár hitaveitna taka verðlagshækkunum um 4,9% en verða ekki samræmdar að þessu sinni enda rekstur og uppbygging þeirra með mismunandi hætti.

 

  1. Gatnagerðagjöld og gjöld vegna byggingaframkvæmda og skipulagsvinnu

Gatnagerðargjöld verða óbreytt en veittur verður 80% afsláttur af gatnagerðargjöldum á lóðum við tilbúnar götur á árinu 2023 og 100% afsláttur á lóðum fyrir íbúðarbyggingar sem hafa viðurkennda umhverfisvottun svo sem Svansvottun. Önnur gjöld vegna byggingaframkvæmda og skipulagsvinnu verða óbreytt en fylgja breytingum byggingarvísitölu sbr. samþykkt þar um.

 

  1. Vatns- og fráveitugjöld

Vatns- og fráveitugjöld verða óbreytt frá því fyrir sameiningu sveitarfélaganna enda er rekstur veitna mismunandi.

 

  1. Tæming rotþróa

Tæming rotþróa - gjaldskrá verður ekki samræmd að sinni. Til stendur að bjóða út verkefnið í hinu nýja sveitarfélagi og að því loknu verður ný gjaldskrá kynnt.

 

Útsvar árið 2023 verður óbreytt frá fyrra ári eða 14,52%.

Álagning fasteignaskatts verður óbreytt, þ.e. 0,65% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis (flokkur A), 1,32% af fasteignamati opinberra stofnana (flokkur B) og 1,65% af atvinnuhúsnæði (flokkur C).

Lóðarleiga af lóðum í þéttbýli verður 1,25% af fasteignamati en leiguverð fyrir lóðir í dreifbýli í eigu sveitarfélagsins verði samkvæmt séstökum samningi hverju sinni.

 

Birt með fyrirvara um innsláttavillur.