Föstudaginn 20. október varð Þingeyjarsveit formlegur aðili að Heilsueflandi samfélagi (HSAM) þegar Alma D. Möller landlæknir og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri undirrituðu samning þess efnis í Stórutjarnaskóla.
Við undirritunina sungu leikskólabörn á leikskólanum Tjarnarskjóli tvö lög og Alma D. Möller og Gígja Gunnarsdóttir verkefnastjóri Heilsueflandi samfélags héldu erindi ásamt Sigurbirni Árna Arngrímssyni sem fjallaði um lýðheilsu.
Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að vinna með markvissum hætti að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Í slíku samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Með innleiðingu Heilsueflandi samfélags vinna sveitarfélög einnig að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Með undirskrift samnings um Heilsueflandi samfélag einsetur Þingeyjarsveit sér að vinna markvisst lýðheilsustarf, í samræmi við markmið og leiðarljós Heilsueflandi samfélags með stuðningi frá Embætti landlæknis og öðrum sem að starfinu koma.
Hér má sjá myndir frá athöfninni.