Hólasandslína 3. Óveruleg breyting á gildandi Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022.

„Niðurstaða sveitarstjórnar auglýst í samræmi við 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Hólasandslína 3. Óveruleg breyting á gildandi Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022.

Sveitarstjórn staðfesti bókun skipulags- og umhverfisnefndar frá 12.nóvember 2020 á fundi sínum þann 19.nóvember:

2. liður fundargerðar; Hólasandslína - Beiðni um breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveita.
Sveitarstjórn samþykkir auglýsingu á breytingartillögu á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að lokinni athugun Skipulagsstofnunar á breytingartillögunni eins og 3. mgr. 30. gr. fyrrnefndra laga mælir fyrir um.


Rökstuðningur skipulags- og umhverfisnefndar 12.11.2020:

Tekin fyrir tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010 - 2022. Tillagan snýr að erindi dags. 9. október 2020 þar sem Daníel Scheving Hallgrímsson f.h. Landsnets leggur fram beiðni um óverulega breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar. Beiðnin er lögð fram vegna breytinga á efnistökusvæðum vegna framkvæmda við Hólasandslínu 3 og felur í sér opnun tveggja nýrra efnistökusvæða við Eyjardalsá ofan við Bárðardal. Vegna framkvæmda við Hólasandslínu 3 voru gerðar breytingar á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010 - 2022, sem staðfest var 2. júlí 2020, þar sem m.a. var bætt við efnistökusvæðum vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Óskað er eftir tveimur nýjum efnistökusvæðum (við möstur 100 og 102) í stað efnistökusvæðis E- 60 í aðalskipulagi (N 12 í matsskýrslu), sem ekki verður notað.

Tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010 - 2022 frá Hornsteinum dags. 6. nóvember 2020 felur i sér niðurfellingu á efnistökusvæði E-60 (merkt N-12 í matsskýrslu) og afmörkun tveggja nýrra efnistökusvæða; E-68: Eyjardalur, þar er áætlað efnistökusvæði 5.300 m2 að stærð og rúmmál 12.000 m3. E-69: Eyjardalur, þar er áætlað efnistökusvæði 4.900 m2 að stærð og rúmmál 12.000 m3. Efnistökusvæðin eru staðsett á gróðursnauðum malarhjöllum, sem auðvelt er að fella að nærumhverfi að lokinni efnistöku.

Bókun/rökstuðningur skipulags- og umhverfisnefndar

Skipulags- og umhverfisnefnd telur að um óverulega breytingu á aðalskipulagi sér að ræða skv. 2. mgr. 36. gr skipulagslaga sem segir að við mat á því hvort breyting á aðalskipulagi geti talist óveruleg skal taka mið af því hvort hún hafi verulegar breytingar á landnotkun í för með sér eða sé líkleg til að hafa mikil áhrif á einstaka aðila eða hafa áhrif á stór svæði.

Í þessu tilviki snýr breytingin að Hólasandslínu 3 þar sem ítarlega var fjallað um efnistökumál í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir. Þar sem ekki voru burðarhæfir slóðar að þeim námum sem tilgreindar voru í mati á umhverfisáhrifum Hólsandslínu 3 voru ekki gerðar nákvæmar rannsóknir á efnisgæðum námanna.

Tillaga að óverulegri breytingu á aðalskipulagi felur í sér að fella út efnistökusvæði sem áætlað var umfangsmeira en það sem tekið er inn í staðinn og því leggur skipulags- og umhverfisnefnd til við sveitarstjórn að samþykkja að auglýsa breytingartillögu á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að lokinni athugun Skipulagsstofnunar á breytingartillögunni eins og 3. mgr. 30. gr. fyrrnefndra laga mælir fyrir um. Jafnframt leggur nefndin til að skipulagsfulltrúa verði falið að sjá um meðferð tillögunnar í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010.