Húsnæðisáætlun Þingeyjarsveitar samþykkt

Hlutverk húsnæðisáætlunar er að draga fram mynd af því hver staða húsnæðismála er í sveitarfélaginu, greina framboð og eftirspurn eftir margvíslegum húsnæðisformum og setja fram áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta húsnæðisþörf heimila, bæði til skemmri og lengri tíma.

Fjölgun hefur verið í sveitarfélaginu á síðustu árum og í forsendum fyrir mannfjöldaspá er gert ráð fyrir áframhaldandi stöðugri fjölgun íbúa á næstu árum. Gaman er að geta þess að á síðasta ári fór íbúafjöldinn yfir háspá húsnæðisáætlunarinnar.

Húsnæði þar sem hægt er að sinna störfum án staðsetningar fer fjölgandi í sveitarfélaginu bæði með tilkomu Gígs og nýju stjórnsýsluhúsi á Laugum þar sem verður leigð út aðstaða fyrir minni stofnanir eða störf án staðsetningar. Í takt við þá uppbyggingu er þörf á auknu húsnæði og má gera ráð fyrir að uppsöfnuð íbúðaþörf sé talsverð. Í áætluninni er gerð grein fyrir íbúðum sem eru í byggingu og er byggt á niðurstöðum úr talningu HMS. Sú talning var framkvæmd í september og þá voru 8 íbúðir á mismunandi byggingarstigum í byggingu í Þingeyjarsveit. Þingeyjarsveit ætlar að halda áfram uppbyggingu á íbúðum til útleigu í almenna leiguhúsnæðiskerfinu og nýta stofnfjárframlag til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis fyrir tekjulága.

Stefna sveitarstjórnar er að lóðir fyrir íbúðir séu ætíð lausar til umsóknar og að bið eftir afhendingu sé ekki of löng. Einnig að bjóða fram lóðir í þéttbýli í tengslum við þjónustu. Í nýju aðalskipulagi sem er í umsagnarferli er gert ráð fyrir nokkrum nýjum byggingarreitum fyrir íbúðarhús í Þingeyjarsveit og breytingar gerðar sem heimila byggingu fleiri íbúðarhúsa á lögbýlum án þess að krefjast sérstakrar aðalskipulagsbreytingar.

 

Hér má lesa húsnæðisáætlun Þingeyjarsveitar 2024