Í umfjöllun á 8. fundi sveitarstjórnar þann 28. september 2022, um rekstrarreikning fyrstu 6 mánaða ársins var byggt á upplýsingum sem komið hefur í ljós að voru rangar. Sú rekstrarniðurstaða sem kynnt var í inngangi oddvita að umfjöllun um dagskrárlið 2, Fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar 2023-2026 er því ekki rétt og launakostnaður ofmetinn um 44,4 m.kr.
Rétt er að taka fram að óendurskoðaður rekstrarreikningur, eins og sá sem lagður var fram og lesinn upp á fundinum, er vinnuskjal við gerð fjárhagsáætlunar og gefur aðeins grófa hugmynd um reksturinn. Reikningurinn sýnir bókfærða stöðu um mitt ár og ýmsar eðlilegar skýringar kunna að vera á mismun á rauntölum og áætlun ársins. Afskriftir og innri leiga eru áætlaðar stærðir. Ályktanir á grundvelli samanburðar við heildaráætlun ársins án frekari greiningar eru því varasamar. Þannig getur innheimtufyrirkomulag fasteignaskatts og árstíðarbundnar sveiflur í innheimtu útsvars haft þau áhrif að tekjur eru minni á fyrri hluta ársins en þeim síðari, sem skekkir samanburðinn. Eins er gert ráð fyrir umtalsverðum framlögum úr Jöfnunarsjóði vegna sameiningar á síðari helmingi ársins sem mun bæta rekstrarniðurstöðuna á ársgrundvelli.
Það að rekstrarniðurstaða á fyrri helmingi ársins í óendurskoðuðu rekstrarreikningi tímabilsins sé neikvæð er því ekki til marks um að fjármálastjórnun hafi verið ábótavant á tímabilinu. Hafi mátt skilja framsetningu upplýsinganna á fundinum þannig, eru stjórnendur Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar á tímabilinu beðnir afsökunar.