Líf og fjör í Breiðumýri

Dagana 14. og 15. október 2024 var haldið ungmennaþing SSNE í Reykjadal, þar sem 32 ungmenni á aldrinum 13–18 ára komu saman. Þessi ungmenni eiga það sameiginlegt að vera fulltrúar í ungmennaráðum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Með þeim í för voru níu starfsmenn ungmennaráða, ásamt verkefnastjórum SSNE. Markmið ungmennaþingsins er að valdefla ungt fólk, styrkja tengsl þeirra við hvert annað og efla samvinnu á milli sveitarfélaga.

Myrra Leifsdóttir, verkefnastjóri æskulýðs-, tómstunda- og menningarmála í Þingeyjarsveit, fylgdi fjórum fulltrúum Þingeyjarsveitar. Fulltrúarnir voru þau Lilja Rós Sæþórsdóttir, Amelía Ásdís Kozaczek, Kristján Brynjólfsson og Júlía Brá Stefánsdóttir. Ungmennin tóku þátt í verkefnum sem miða að því að undirbúa þau fyrir þetta mikilvæga hlutverk.

Vel var tekið á móti hópnum á Narfastöðum, þar sem starfsfólkið sá til þess að þau hefðu það gott og eldaði dýrindis máltíðir ofan í þau. Pastarétturinn var svo vinsæll að ungmennin báðu um uppskriftina.

Í gegnum viðburðinn tóku ungmennin þátt í fjölbreyttum vinnustofum. Lýðræðislestin kom frá Alþingi og hélt vinnustofu um mikilvægi lýðræðis og hvernig frumvarp fer í gegnum Alþingi. Bergið headspace fjallaði um andlega heilsu ungmenna og fulltrúar frá Samfés fjölluðu um samstarf félagsmiðstöða og ungmennahúsa á landsvísu. Sigríður frá Mögnum hélt svo sjálfseflandi vinnustofu og fræðslu um teymisvinnu. Þau fengu einnig innsýn í hvernig hægt er að nýta lýðræðislega þátttöku til að hafa áhrif á eigin samfélag. Að kvöldi var haldin leiklistarkvöldvaka þar sem þátttakendur komu saman og eyddu kvöldinu í skapandi starfi, sem styrkti enn frekar samheldnina í hópnum. Það sem stóð upp úr var samt þegar Unnsteinn á Narfastöðum kveikti varðeld og ungmennin fengu að kynnast, drekka kakó, grilla sykurpúða og spjalla saman frameftir kvöldi, sum skelltu sér í pottinn á meðan önnur skiptust á að velja lög til að blasta út í störnubjart kvöldið.

Markmiðið með ungmennaþinginu er að valdefla ungt fólk, stuðla að aukinni tengingu á milli ungmenna í landshlutanum og búa til vettvang þar sem þau geta myndað sterkt tengslanet og unnið saman að framtíðarverkefnum. Slík þátttaka eykur skilning ungmenna á stjórnsýslu og lýðræðislegri þátttöku, sem er grunnurinn að sterku samfélagi.

Ungmennaþing SSNE hefur verið haldið árlega síðan 2021. Fyrsta þingið var haldið í Mývatnssveit, næst á Dalvík árið 2022, og síðan á Raufarhöfn árið 2023. Þingeyjarsveit er eitt af sveitarfélögunum sem tekur reglulega þátt í þinginu, og gott samtal ríkir milli starfsmanna sveitarfélaganna sem taka þátt. Starfsmenn SSNE sjá um hagnýta skipulagningu þingisins, í samstarfi við starfsfólk sveitarfélaganna.

Ungmennaþing eru haldin árlega til að virkja ungmennaráð á Norðurlandi eystra, styðja þau í starfi sínu og skapa vettvang þar sem raddir ungmenna fá aukið vægi í samfélaginu. Markmiðið er einnig að safna reynslu og skoðunum ungmenna þvert á sveitarfélög, stuðla að því að þau kynnist hvert öðru, og að þátttaka í stjórnsýslu og verkefnum SSNE verði bæði áhugaverð og eftirsóknarverð. Þá er afar mikilvægt að fá skilaboð frá ungmennum inn á samráðsvettvang sóknaráætlunar, þar sem þeirra sjónarmið geta haft raunveruleg áhrif á framtíðarskipulag samfélagsins.

Ungmennaráðin gegna lykilhlutverki í þessu ferli, og samstarf þeirra á milli er grundvallaratriði í því að móta framtíðina á Norðurlandi eystra.

Fulltrúar Þingeyjarsveitar á þinginu

Fulltrúar Þingeyjarsveitar á þinginu.