Viltu halda listasmiðju eða kenna krökkum að rappa? Halda hláturjóga eða bjóða uppá söngstund með álfum? Hvað með að þú grafir gömlu svuntuna upp og skellir í nokkrar vöfflur? Viltu selja handverk, ís, kaffi eða aðrar veitingar? Nú er tækifærið!
Í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins er verið að undirbúa glæsilega 17. júní hátíð á Laugum. Að undirbúningnum standa Ungmennafélagið Efling og Kvenfélag Mývatnssveitar. Þetta er annað árið í röð sem félögin taka höndum saman og halda sameiginlega hátíð. Hugmyndin er að hátíðin færist milli staða á ári hverju, hún var í Skjólbrekku í fyrra og verður því á Laugum í ár.
Nú virkjum við gamla ungmennafélagsandann, komum saman og flöggum fánum, brosum, hlægjum og fögnum áttræðisafmæli okkar.
17. júní nefndin óskar eftir samstarfsaðilum og vill kanna áhuga fyrirtækja og skapandi einstaklinga í sveitarfélaginu til að taka þátt í götumarkaði á deginum. Hægt er að vera með smiðju, taka þátt í markaðstorgi og/eða vera með veitingasölu. Þetta er kjörið tækifæri fyrir framleiðendur á svæðinu að kynna sínar vöru fyrir íbúum og mynda tengsl. Allir velkomnir - ekkert þáttökugjald.
Ef þú ert með vöru sem þú vilt selja eða vilt virkja sköpunargáfurnar í þágu samfélagsins ekki hika við að hafa samband við 17. júní nefndina. Hafa má samband við nefndina í gegnum Myrru Leifsdóttur, verkefnastjóra æskulýðs-, tómstunda- og menningarmála hjá Þingeyjarsveit í myrra@thingeyjarsveit.is til að fá nánari upplýsingar eða fylla út eyðublað fyrir þátttöku hér.