Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum 22. ágúst sl. nýjar reglur um snjómokstur. Að flestu leyti er um sambærilegar reglur að ræða og hafa verið. Stóru breytingarnar eru þær að nú er heimilt að moka átta sinnum á mánuði í stað tvisvar í viku. Þessi breyting er gerð svo mögulegt sé að moka oftar í þeim vikum sem snjóar mikið.
Aðrar breytingar snúa að þeim sem hafa ekki fasta búsetu í Þingeyjarsveit en hafa hér lögheimili. Almennt er það svo að þau sem eiga lögheimili einhvers staðar eiga að hafa þar fasta búsetu, en svo er ekki alltaf og eru til undanþágur á því. Skv. lögum um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018 er föst búseta skilgreind svo: ,,Með fastri búsetu er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika." . Sveitarfélagið notast við þessa skilgreiningu þegar kemur að fastri búsetu.
Þau sem ekki hafa fasta búsetu en eru engu að síður með lögheimili hér njóta enn þjónustu með fyrirvörum þó. Fyrirvararnir snúast fyrst og fremst að því að nú þurfa þau að hafa samband við snjómokstursfólk með góðum fyrirvara til þess að mokað verði. Þetta er gert svo sveitarfélagið greiði ekki allan kostnað fyrir sérstök útköll vegna þeirra og verður vonandi til þess að kallað verði eftir þjónustunni þegar mokstursaðilar eru á svæðinu.
Einnig er nýjung þar sem einstaklingar geta sjálfir sótt um að moka eigin heimreiðar í stað þess að snjómokstursverktakar sjái um það. Á næstu dögum verður auglýst eftir þeim sem vilja sjálfir moka heimreiðar. Þegar úrvinnslu þeirra umsókna er lokið verða moksturssvæði auglýst og hafa allir tækifæri til að sækja um svæði. Stuðst verður við reynslu og tækjabúnað þeirra sem sækja um þegar svæðum verður úthlutað.
Þessar nýju reglur verða vonandi til þess að bæta þjónustu og vera til hagræðis fyrir íbúa og sveitarfélagið. Nýju reglurnar má sjá HÉR