Bókin Orð eru ævintýri er gjöf til allra barna á Íslandi fædd árin 2018, 2019 og 2020. Á næsta ári fá öll börn fædd 2021 bókina og svo nýr árgangur barna á þriðja aldursári ár hvert á komandi árum.
Orð eru ævintýri er litrík myndaorðabók sem inniheldur yfir 1000 íslensk og algeng orð þar sem myndir leika stórt hlutverk. Efnið er vel til þess fallið að spjalla við nemendur sem eru að stíga sín fyrstu skref í íslensku um orð daglegs lífs. Efla þar með orðaforða þeirra og virkja ímyndunarafl. Menntamálastofnun gaf bókina út í samvinnu við Miðju máls og læsis hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, leikskólana Laugasól og Blásali, Austurbæjarskóla og námsbraut í talmeinafræði við Háskóla Íslands. Markar þessi útgáfa þáttaskil í útgáfu Menntamálastofnunar þar sem þetta er fyrsta námsefnið sem stofnunin gefur út fyrir leikskólastigið.
Aftast í bókinni eru stuttar leiðbeiningar um notkun og hugmyndir að umræðuefnum. Bókin hefur verið þýdd á nokkur tungumál og verður á rafrænu formi á vef Menntamálastofnunar ásamt gagnvirkum verkefnum og kennsluleiðbeiningum fyrir leik- og grunnskóla. Bókinni hefur nú verið dreift til leikskólabarna í Þingeyjarsveit og við vonum að hún verði skoðuð sem oftast á heimilum og verði uppspretta nýrra ævintýra og leikja.