Gleðilegt sumar, kæru íbúar Þingeyjarsveitar!
Í dag fögnum við komu sumars, vetur að baki og má segja að uppskera vetrarins verði sýnileg með ýmsum viðburðum sem marka lok starfsárs og vorkomu. Í nýjustu Hlaupastelpunni kemur það berlega í ljós, en þar auglýsa bæði Karlakórinn Hreimur og Sönghópurinn Sálubót vortónleika. Í ár fagnar Skógræktarfélag Suður Þingeyinga 80 ára afmæli sínu en það var stofnað 19. Apríl 1943. Þann 24. júní nk. mun félagið bjóða til afmælishátíðar í Fosselsskógi. Áfram mætti telja en læt hér staðar numið en ljóst er að mikið menningar og sjálfboðaliðastarf fer fram í Þingeyjarsveit og það ber að þakka.
Síðasta árið hefur reynt talsvert á stjórnsýslu og starfsfólk sveitarfélagsins en óhætt er að segja að það hefur með miklu þolgæði, elju og dugnaði þjónustað íbúa vel. Er starfsfólkinu færðar bestu þakkir fyrir óeigingjarnt starf í þágu sveitarfélagsins. Á síðasta sveitarstjórnarfundi var skipaður starfshópur til að ljúka vinnu við nýtt stjórnskipulag fyrir sveitarfélagið og í framhaldinu mun starfshópurinn vinna að lausn húsnæðismála fyrir stjórnsýslu þess.
Fjölmörg verkefni lágu fyrir í stjórnsýslunni eftir sameiningu sveitarfélaganna sl. vor. Hefur úrvinnsla þeirra gengið heldur hægar en ráð var fyrir gert. Nú er unnið að samræmingu ýmissa gagna, stefna og reglna. Undirbúningur að nýrri heimasíðu er í gangi og verið er að hanna nýtt byggðamerki. Í kjölfarið verður farið í endurmörkun sveitarfélagsins og er það er tilhlökkunarefni að kynna nýtt merki og útlit fyrir íbúum sveitarfélagsins.
Í næstu viku verður ný aðstaða fyrir starf eldri borgara í Mývatnssveit tekin formlega í notkun og mun Félag eldri Mývetninga einnig fá inni í húsnæðinu fyrir sína starfsemi. Er það von okkar í stjórnsýslunni að við þessa breytingu muni starf þeirra vaxa og eflast.
Nú stendur yfir vinna við nýja skólastefnu Þingeyjarsveitar undir handleiðslu ráðgjafa frá Skólastofunni slf. Í næstu viku verða opnir íbúafundir sem ég hvet íbúa til að taka þátt í. Það er ákaflega mikilvægt að sjónarmið allra hagsmunaaðila birtist í stefnunni þannig hún verði okkur gott veganesti til framtíðar. Frekari upplýsingar og skráningu á fundina er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins.
Með þessum orðum og tilvitnunum í ljóð Sigurðar Jónssonar frá Arnavatni Nú er sól og sumar óska ég íbúum Þingeyjarsveitar gleðilegs sumars og með bjartsýni hlakka ég til að takast á við verkefni komandi ára.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri.