Þann 18. janúar fjallaði byggðarráð um stöðu kjarasamninga, verðbólgu og stýrisvaxta. Nauðsynlegt væri að leggja áherslu á langtímakjarasamninga og tryggja verðstöðugleika til lengri tíma. Gjaldskrá Þingeyjarsveitar tók mið af verðbólguspá og numu almennar hækkanir um 7,5% í fjárhagáætlun 2024. Byggðarráð lýsti því yfir að sveitarfélagið sé reiðubúið til að leggja sitt af mörkum og endurskoða gjaldskrárhækkanir ef náist þjóðarsátt um stöðugt verðlag, þar sem almenni markaðurinn og opinberi séu reiðubúnir að ganga í takt.
Bókun byggðarráðs var tekin fyrir á sveitarstjórnarfundi þann 25. janúar. Jóna Björg Hlöðversdóttir formaður ráðsins sagði það vekja áhyggjur að samningaviðræðum hafi verið slitið og vísað til ríkissáttarsemjara en að hún bindi enn vonir við að það geti orðið einhverskonar þjóðarsátt.
Sveitarstjórn gerði bókun byggðarráðs að sinni, hana má lesa í heild hér;
„Eitt stærsta hagsmunamál fyrir heimilin í landinu er verðstöðugleiki. Lækkun verðbólgu, stýrivaxta og ekki síður langtímavaxta skiptir miklu máli fyrir fjárhagslega afkomu fólks, fyrirtækja og sveitarfélaga. Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar styður þær fyrirætlanir, að lögð sé áhersla á langtímakjarasamninga með verðstöðugleika til lengri tíma að leiðarljósi.
Ef í burðarliðnum er þjóðarsátt um stöðugt verðlag, þar sem bæði launþegahreyfingar starfsmanna á almenna markaðinum og opinberra starfsmanna ganga í takt, þá er Þingeyjarsveit reiðubúin að leggja sitt af mörkum og endurskoða gjaldskrárhækkanir. Sveitarstjórn minnir jafnframt á að innan sveitarfélagsins eru einingar á borð við sorphirðu en lögum samkvæmt er gert ráð fyrir að slíkar einingar séu sjálfbærar og verða gjaldskrár að taka mið af því. Almenn hækkun á gjaldskrám Þingeyjarsveitar í fjárhagsáætlun 2024 er 7,5% sem tók mið að áætlaðri verðbólgu ársins 2023 og 2024. Þrátt fyrir samþykkta fjárhagsáætlun ársins 2024 lýsir sveitarstjórn Þingeyjarsveitar yfir vilja til að endurskoða gjaldskrárhækkanir, verði af þjóðarsátt.“