Mývetningar riðu á vaðið og héldu þorrablót liðna helgi. Þorrinn er þó ekki formlega genginn í garð enda rugluðust Mývetningar eins og fleiri í ríminu og gerðu ekki ráð fyrir rímspillisári í ár. Það þýðir að bóndadagurinn er viku seinna en venjulega. Þó flestir læri af reynslunni má ætla að einhverjar þorrablótsnefndir muni líka ruglast næst enda um það bil 28 ár í næsta rímspillisár. Hér geta forvitnir fundið upplýsingar um rímspillisár.
Dagaruglingurinn hafði þó engin áhrif á blótið í Skjólbrekku sem var hið glæsilegasta og stórgóð stemming í húsi. Kvenfélag Mývatnssveitar sá að venju um blótið. 19 manns voru í nefnd og heyrst hefur að skemmtiatriðin, sem voru öll leikin, hafi sjaldan verið betri! Húsvíska stuðsveitin SOS lék fyrir dansi og sælkerar gæddu sér á kæstum eggjum.
Skemmtanaþyrstir sveitungar hafa í nógu að snúast næstu helgar enda mörg blót fram undan;
-Þorrablót Bárðdæla verður 27. janúar
-Þorrablót Fnjóskdæla, Reykdæla og Aðaldæla verða 3. febrúar
-Þorrablót Ljósvetninga verður 17. febrúar
Skólar sveitarfélagsins láta ekki sitt eftir liggja og halda flestir blót með skemmtiatriðum og tilheyrandi.
Búnaðarsamband Suður-Þingeyinga býður félagsmönnum og fólki á svæðinu upp á danskennslu í Stórutjarnaskóla miðvikudagana 24. og 31. janúar. Við hvetjum fólk til að koma saman og hita upp fyrir blót, nánari upplýsingar er að finna hér á facebook.
Myndir frá Þorrablóti í Skjólbrekku 2024