Fulltrúar Þingeyjarsveitar þáðu heimboð sveitarstjórnar Suður-Fróns (Sør-Fron) í mið-Noregi síðsumars. Markmið heimsóknarinnar var að leggja grunn að vinabæjarsamstarfi Þingeyjarsveitar og Suður-Frón sem áður var vinabær Skútustaðahrepps.
Afar vel var tekið á móti fulltrúum okkar, þeim Ragnheiði Jónu, Knúti Emil og Jónu Björgu. Þau fengu kynningu á sveitarfélaginu, funduðu með kjörnum fulltrúum og heimsóttu m.a. Sygard Grytting, Rudi Gard, Sör-Frón kirkju, Sörheim og Gålå. Einnig var fundað með Norræna félaginu í mið-Guðbrandsdal . Með í för var Högni Kristjánsson sendiherra Íslands í Noregi.
Áhugavert var að heimsækja sveitarfélagið sem er um margt líkt Þingeyjarsveit, dreifbýlt sveitarfélag sem byggir á landbúnaði, ferðaþjónustu og iðnaði. Stóru verkefni sveitarfélaganna sem og áskoranirnar sem þau standa frammi fyrir sem dreifbýl samfélög eru jafnframt lík, s.s. í skólastarfi, dreifðri þjónustu við íbúa og samgöngum. Heimafólk tjáði fulltrúum Þingeyjarsveitar að sumarið hefði verið ansi blautt í júlí, líkt og hér heima og var heyskapur í seinna fallinu líkt og hjá okkur.
Suður-Frón er ríkt af menningu og eru fjölmargar hátíðir haldnar ár hvert og fengu fulltrúar sveitarfélagsins að upplifa frumsýningu á Peer Gynt við Gålåvatnið í dýrðlegu veðri þar sem um 25 þúsund manns sjá árlega uppsetninguna sem er útisýning á bökkum vatnsins.
Óhætt er að segja að þessi tvö sveitarfélög standi frammi fyrir sambærilegum áskorunum og tækifærum. Nú er unnið að samstarfssamningi milli sveitarfélaganna sem byggir m.a. á samstarfi á sviði menningar, ungmenna og stjórnsýslu.
Fulltrúar Þingeyjarsveitar senda kveðjur og þakkir fyrir afar góðar móttökur til Suður Fóns og óhætt er að segja að það er tilhlökkun fyrir samstarfi við þetta nýja vinabæjarsveitarfélag.