Sveitarstjórn hittist á aukafundi á netheimum í dag og tók meðal annars fyrir niðurstöður útboðs á innan- og utanhússfrágangi á nýju stjórnsýsluhúsi í Þingeyjarsveit.
Nýtt stjórnsýsluhús mun halda utan um starfsemi sveitarfélagsins ásamt því að hafa skrifborð og rými sem fyrirtæki, stofnanir og einyrkjar geta nýtt sér. Vonast er til þess að húsið verði iðandi af lífi, suðupottur hugmynda og verkefna þar sem allir eru velkomnir, líkt og Gígur í Mývatnssveit.
„Með tilkomu nýs stjórnsýsluhúss verður aðstaða starfsmanna öll hin besta og mikil tilhlökkun er í starfsmannahópnum að flytjast í nýtt húsnæði. Með nýju húsnæði skapast spennandi tækifæri þar sem gert er ráð fyrir rýmum til útleigu því mikilvægt er að hafa starfsaðstöðu fyrir fólk sem flytur störf með sér í sveitarfélagið“ segir Ragnheiður Jóna, sveitarstjóri.
Valþór Brynjarsson byggingarstjóri kynnti niðurstöður útboðsins fyrir sveitarstjórn en tvö tilboð bárust í verkið.
-Byggingarfélagið stafninn ehf. kr. 167.900.000.
-Trésmiðjan Sólbakki ehf. kr. 147.581.275.
Kostnaðaráætlun verksins var kr. 140.322.061.
Valþór sagði á fundinum að útboðsferlið hefði gengið eðlilega fyrir sig, kallað hefði verið eftir fleiri gögnum og spurningum svarað. Sá aðili sem hefði gert lægra tilboð stæðist þær kröfur sem gerðar væru til hans og að verktakinn væri tilbúinn til þess að hefjast handa strax. Nú standa yfir framkvæmdir við lyftustokk í húsinu og stefnt að síðustu steypu næsta mánudag.
Verkið felst í því að innrétta gamla Litlulaugaskóla í Reykjadal, hús sem í dag gengur undir nafninu Seigla. Seigla er 3ja hæða og 764 fermetrar. Helstu verkefnaliðir eru að setja nýtt gólfefni og innihurðir. Stúka húsið niður í skrifstofur með léttum gifsveggjum og glerveggjum. Endurnýja allt rafmagn, hita og neysluvatnskerfi.
Sveitarstjórn samþykkti samhljóða að ganga til samninga við Trésmiðjuna Sólbakka ehf. á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs. Það var létt yfir sveitarfulltrúum enda almenn ánægja með bætta aðstöðu fyrir starfsfólk sveitarfélagsins. Verklok eru áætluð í ágúst og áhersla lögð á það af hálfu sveitarstjórnar að það standist enda stefnir Gerður Sigtryggsdóttir, oddviti á að mæta með bananabrauð og köku fyrir starfsfólk sveitarfélagsins í morgunkaffi í Seiglu þann 2. september.
Ragnheiður Jóna og Baldvin Áslaugsson hjá Trésmiðjunni Sólbakka létu verkin tala og undirrituðu samninga eftir hádegi í Seiglu í dag. Baldvin var hinn ánægðasti og hefst strax handa við verkefnið.