Fara í efni

Vel heppnuð Vetrarhátíð

Vetrarhátíð við Mývatn lauk um helgina eftir 10 daga af fjöri. Heimamenn og gestir höfðu um margt að velja alla dagana og skemmtu sér konunglega þrátt fyrir að stærstu íþróttaviðburðunum hafi verið aflýst vegna vor veðurs og snjóleysis. Dagskráin í ár var afar fjölbreytt allt frá opnum badminton tímum, handavinnustundum, heimatónleikum og spilavist í dorg og vöfflukaffi. Hátt í 50 viðburðir voru á dagskrá út um allt sveitarfélag.

Við viljum þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar. Sérstakar þakkir fær Mývatnsstofa fyrir skipulagningu og þá miklu vinnu sem þarf til þess að gera hátíðina að veruleika. "Þrátt fyrir að snjóinn hafi vantað í ár, þá var hátíðin full af lífi og gleði. Samheldni og kraftur samfélagsins skín í gegn og við erum innilega þakklát öllum þeim sem gera hátíðina að þessari miklu veislu sem hún er. Sérstaklega ánægjulegt er að segja frá því að erlendum gestum fjölgar sífellt og æ fleiri fyrirspurnir um hátíðina eru að koma erlendis frá," segir Soffía Kristín Jónsdóttir verkefnisstjóri Vetrarhátíðar við Mývatn.

Það er frábært að sjá hversu margir eru til í að leggja hönd á plóg til þess að gera hátíðina svona veglega og við stefnum ótrauð á Vetrarhátíð við Mývatn 27. febrúar - 9. mars 2026. Ef þú ert að plana viðburð þá máttu endilega hafa samband við info@visitmyvatn.is og sjá hvort hann geti ekki orðið partur af Vetrarhátíð, enda gerir margt smátt eitt risa stórt!

Getum við bætt efni þessarar síðu?