Viðbragðsáætlun virkjuð

Bárðarbunga, mynd fengin af ruv.is
Bárðarbunga, mynd fengin af ruv.is
Vegna aukinnar jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu hefur Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra virkjað viðbragðsáætlun vegna eldgoss í Bárðarbungu eða norðan Vatnajökuls í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
 
Áætlunin er virkjuð á óvissustigi og hafa viðbragðsaðilar fengið boðun í gegnum neyðarlínuna í samræmi við viðbragðsáætlunina þar sem segir: Óvissustig – líkur á eldgosi undir Vatnajökli.
 
Virkjunin er fyrst og fremst gerð í þeim tilgangi að viðbragðsaðilar og þeir sem hafa hlutverkum að gegna samkvæmt áætluninni hafi tækifæri til að undirbúa sig og rifja upp áætlunina.
 
Viðbragðsáætlunina má finna á síðu almannavarna, sjá hér: Eldgosaáætlanir | Categories | Almannavarnir
 
Ákveðið hefur verið að hafa opna aðgerðastjórn á Húsavík kl. 8-12 næstu daga. Þeir sem þurfa að hafa samband við aðgerðastjórn geta hringt í 464-9717 eða sent tölvupóst á netfangið ast.husavik@simnet.is