20 ára afmælismót Goðans
20 ára afmælismót skákfélagsins Goðans hófst í gær, 13. mars kl. 19:00 í félagsheimilinu Skjólbrekku í Mývatnssveit. Sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir lék fyrsta leiknum í skák Simon Williams og Hallgerðar Helgu Þorsteinsdóttur.
Mótið stendur yfir dagana 13.–16. mars og er haldið í tilefni af 20 ára afmæli félagsins, sem er þann 15. mars.
Keppendur munu tefla sex umferðir eftir svissnesku kerfi í einum opnum flokki. Tímamörk fyrir hverja skák eru 90 mínútur með 30 sekúndna viðbótartíma á hvern leik.
Mótið hefur vakið athygli fyrir sterka þátttöku og er talið eitt það sterkasta sem haldið hefur verið í dreifbýli á Íslandi. Fjöltefli við breska stórmeistarann Simon Williams var haldið á Húsavík í aðdraganda mótsins, þar sem hann mætti 20 skákmönnum.
Sel-Hótel Mývatn mótið og Hraðskáksmót
Í tilefni mótsins verða tvö önnur mót í gangi um helgina. Sel-Hótel Mývatn mótið í skák fer fram í fundarsal Sel Hótels laugardaginn 15. mars kl. 14:00. Mótið er öllum opið, grunnskólanemendum í Þingeyjarsveit sem og fullorðnum og er ókeypis í það. Þá verður Hraðskáksmót í tilefni afmælismótsins sem hefst upp úr kl. 21:00 í fundarsal Sel-Hótels föstudagskvöldið 14. mars. Mótið er ókeypis og öllum áhugasömum opið og fer skráninga í það fram á mótsstað.
Skákfélagið Goðinn var stofnað árið 2005 og hefur síðan þá staðið fyrir fjölmörgum skákmótum og viðburðum á Norðurlandi. Afmælismótið er hápunktur afmælisársins og er ætlað að efla skákáhuga og samheldni meðal skákáhugamanna á svæðinu.
Sýnt er beint frá mótinu og allar frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Goðans.
Hér má sjá myndir frá opnunarkvöldi mótsins.
Hjartanlega til hamingju með árin 20 skákfélagið Goðinn, megi starf ykkar halda áfram að dafna og styrkjast um ókomin ár!