Fara í efni

20 ára afmælismót Goðans

20 ára afmælismót skákfélagsins Goðans hófst í gær, 13. mars kl. 19:00 í félagsheimilinu Skjólbrekku í Mývatnssveit.  Sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir lék fyrsta leiknum í skák Simon Williams og Hallgerðar Helgu Þorsteinsdóttur.

Mótið stendur yfir dagana 13.–16. mars og er haldið í tilefni af 20 ára afmæli félagsins, sem er þann 15. mars.

Keppendur munu tefla sex umferðir eftir svissnesku kerfi í einum opnum flokki. Tímamörk fyrir hverja skák eru 90 mínútur með 30 sekúndna viðbótartíma á hvern leik. 

Mótið hefur vakið athygli fyrir sterka þátttöku og er talið eitt það sterkasta sem haldið hefur verið í dreifbýli á Íslandi. Fjöltefli við breska stórmeistarann Simon Williams var haldið á Húsavík í aðdraganda mótsins, þar sem hann mætti 20 skákmönnum.

Sel-Hótel Mývatn mótið og Hraðskáksmót

Í tilefni mótsins verða tvö önnur mót í gangi um helgina. Sel-Hótel Mývatn mótið í skák fer fram í fundarsal Sel Hótels laugardaginn 15. mars kl. 14:00. Mótið er öllum opið, grunnskólanemendum í Þingeyjarsveit sem og fullorðnum og er ókeypis í það. Þá verður Hraðskáksmót í tilefni afmælismótsins sem hefst upp úr kl. 21:00 í fundarsal Sel-Hótels föstudagskvöldið 14. mars. Mótið er ókeypis og öllum áhugasömum opið og fer skráninga í það fram á mótsstað.

Skákfélagið Goðinn var stofnað árið 2005 og hefur síðan þá staðið fyrir fjölmörgum skákmótum og viðburðum á Norðurlandi. Afmælismótið er hápunktur afmælisársins og er ætlað að efla skákáhuga og samheldni meðal skákáhugamanna á svæðinu.

Sýnt er beint frá mótinu og allar frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Goðans.

Hér má sjá myndir frá opnunarkvöldi mótsins.

Hjartanlega til hamingju með árin 20 skákfélagið Goðinn, megi starf ykkar halda áfram að dafna og styrkjast um ókomin ár!

Getum við bætt efni þessarar síðu?