Bréf til íbúa Þingeyjarsveitar

Kæru íbúar.

Árið 2016 er að renna sitt skeið eftir afar snjólétta mánuði undanfarið og nýtt ár að ganga í garð með hækkandi sól. Í bréfi þessu langar mig að tæpa á nokkrum málum sem mér finnst mikilvægt að upplýsa ykkur um.

Sveitarstjórn afgreiddi fjárhagsáætlun þann 15. desember s.l. þar sem gert er ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu sveitarsjóðs á næsta ári  að upphæð 19,2 m.kr. og í samstæðu A og B hluta að upphæð 10,2 m.kr.. Fjárfestingaáætlun fyrir næsta ár hljóðar uppá 74 m.kr. Skatttekjur sveitarfélagsins hafa verið að aukast sem leitt hefur til þess að hvorki á þessu ári né því næsta er gert ráð fyrir tekjujöfnunarframlagi frá Jöfnunarsjóði líkt og undanfarin ár. Hvað varðar framkvæmdir á næsta ári þá er áætlað að ljúka framkvæmdum við kaldavatnsveitu á Laugum og framkvæmdum við gámavöllinn á Stórutjörnum. Einnig er gert ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu við Goðafoss með framlagi frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og lagningu ljósleiðara samkvæmt samningi við Tengir hf.

Framkvæmdir við lagningu ljósleiðara hafa gengið vel og eru samkvæmt áætlun. Nú í nóvember var lokið við að tengja þær 150 tengingar sem voru á áætlun á þessu ári. Nú er verið að virkja þá notendur og þegar búið að virkja um 70 þeirra. Þátttaka íbúa er afar góð eða um 98% og það er gleðilegt hvað íbúar hafa verið duglegir að láta okkur vita og lýsa ánægju sinni með þetta framtak enda um tímamótaverkefni að ræða sem eykur lífsgæði og bætir búsetuskilyrði. Við höldum svo áfram á næsta ári en samkvæmt samningi við framkvæmdaaðilann er stefnt á að verkefninu ljúki í síðasta lagi í árslok 2018.  

Þróunarverkefnið í sorpmálum er komið vel á veg og nú eru öll lögheimili í sveitarfélaginu komin með sorptunnur heim við hús og íbúar farnir að flokka sorpið. Mig langar til að hrósa ykkur fyrir jákvæðni og góða þátttöku í þessu verkefni en eins og ég hef áður nefnt þá skiptir þátttaka ykkar öllu máli svo vel megi til takast. Þess má geta að Gámaþjónustan hefur verið sérstaklega ánægð með hve vel þið, íbúar Þingeyjarsveitar, flokkið í tunnurnar. Tíðarfarið hefur þá verið okkur sérstaklega hliðholt en reikna má með einhverjum hnökrum þegar snjóalög fara að hafa áhrif á sorphirðuna og bið ég ykkur um að sýna því skilning. Gámavöllurinn er kominn vel á veg og við erum nú þegar farin að nýta hann en á næsta ári munum við formgera starfsemina þar betur og ráða starfsmann sem þjónustar og vaktar svæðið. Á fyrstu mánuðum næsta árs mun ég boða til íbúafunda þar sem við munum fara betur yfir stöðuna í sorpmálum, m.a. gera betur grein fyrir sorphirðudagatali, aðgangi að gámavelli sem og gefa íbúum tækifæri á að spyrja og fá frekari upplýsingar varðandi þessi mál. Íbúafundirnir verða auglýstir í tíma.

Ný heimasíða er komin í gagnið þó við séum enn að laga og bæta við hana en markmiðið er að hún verði upplýsinga- og tilkynningasíða fyrir íbúa með allt það helsta og nýjasta en eldra efni verður alltaf aðgengilegt á skrifstofu sveitarfélagsins. Þá höfum við tengt heimasíðuna við Facebook, eingöngu til að tilkynningar skili sér betur til íbúa. Við stefnum svo á að taka upp nýtt skjalavörslukerfi á næsta ári sem mun auka skilvirkni í meðferð og skráningu mála sveitarfélagsins og þar með bæta upplýsingaveituna.

Ég og oddviti höldum áfram að bjóða uppá viðtalstíma víðsvegar um sveitarfélagið, ég mun auglýsa þá viðtalstíma sérstaklega hverju sinni líkt og síðast og ég hvet ykkur til að nýta þessa tíma, koma ykkar sjónarmiðum á framfæri sem og upplýsa okkur.

Að lokum langar mig að minnast á hinn sívinsæla spurningaþátt, Útsvar á RÚV en Þingeyjarsveit tók þátt í fyrsta skipti nú í byrjun desember og keppendur okkar, þau Sigurbjörn Árni, Hanna Sigrún og Þorgrímur stóðu sig með miklum sóma og óska ég þeim til hamingju með sigurinn. Við hlökkum til á sjá þau aftur á skjánum á næsta ári.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári með þökk fyrir ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða.

Dagbjört, sveitarstjóri.