Bréf til íbúa Þingeyjarsveitar
Kæru íbúar, ykkur til upplýsingar tæpi ég hér á einu og öðru í starfsemi Þingeyjarsveitar og því sem framundan er.
Fjárhagsáætlun 2019-2022
Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins 2019-2022 var tekin til afgreiðslu þann 6. desember s.l. Gert er ráð fyrir 18 milljóna kr. rekstarafgangi á næsta ári. Heildartekjur sveitarfélagsins eru áætlaðar 1,2 milljarður, þar af eru skatttekjur 946 milljónir kr. Fjárfestingar eru áætlaðar 120,5 milljónir kr. og fyrirhuguð lántaka er um 100 milljónir kr.
Áfram verður boðið uppá fríar máltíðir fyrir nemendur í grunn- og leikskólum, einnig frí námsgögn fyrir nemendur í grunnskólum og frístundastyrkur barna var hækkaður í 15.000 kr. á ári fyrir hvert barn. Markmiðið er að koma til móts við barnafjölskyldur og bæta stöðu barna í sveitarfélaginu. Ég vil hvetja foreldra til að nýta sér frístundastyrkinn og senda umsókn þess efnis á skrifstofu sveitarfélagsins. Umsóknareyðublöð eru aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins.
Tekjumörk vegna afsláttar af fasteignaskatti eldri borgara og öryrkja voru hækkuð og einnig voru tekjumörk hækkuð í gjaldaflokkum heimaþjónustunnar sem gerir það að verkum að fleiri njóta afsláttarkjara.
Þá var samþykkt að gjaldskrár leikskóla og sundlaugarinnar á Laugum tækju ekki hækkunum og eru því óbreyttar.
Fyrirhugaðar framkvæmdir á komandi ári
Helstu framkvæmdir á næsta ári eru flutningur leikskólans Barnaborgar yfir í Þingeyjarskóla og lokaframkvæmdir við Goðafoss.
Reiknað er með að uppbygging hefjist strax í byrjun árs vegna Barnaborgar en undirbúningsvinna í húsnæði Þingeyjarskóla hefur nú þegar farið fram. Við flutninginn mun leikskólinn fá mun stærra rými og ýmiskonar samnýting verður með grunnskólanum. Stefnt er að flutningi leikskólans næsta haust. Fyrir liggur að selja núverandi húsnæði Barnaborgar í framhaldinu.
Lokaframkvæmdir við Goðafoss eru áætlaðar næsta sumar og er þá sjö ára framkvæmdatímabil við fossinn á enda. Sveitarfélagið sótti um styrk í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða nú í október líkt og við höfum gert undanfarin ár. Fyrirhugað er að malbika bílastæðin og göngustíga að vestan sem og ljúka frekari frágangi á verkinu í heild. Almenn ánægja er með hvernig tekist hefur til við uppbygginguna við Goðafoss og ánægjulegt að fá öll þessi jákvæðu viðbrögð gesta okkar sem og heimamanna varðandi bætt aðgengi, öryggi og vernd á svæðinu. Við höfum þá framtíðarsýn að eftir uppbygginguna verði starfandi landvörður á svæðinu sem færi með umsjón og eftirlit.
Vaðlaheiðargöng og brunavarnir
Nú styttist í opnun Vaðlaheiðarganga sem er mikið fagnaðarefni. Það eru slökkvilið á vegum Þingeyjarsveitar og Svalbarðsstrandahrepps sem munu fara með brunavarnir í göngunum en samkvæmt lögum og reglum þarf að skilgreina sérstaklega hver fer með forræðið. Svalbarðsstrandahreppur er með samning við slökkviliðið á Akureyri um brunavarnir í sínu sveitarfélagi og nýlega var gengið frá samkomulagi milli sveitarfélaganna um að slökkvilið Akureyrar færi með forræði brunavarna í Vaðlaheiðargöngum. Einnig hafa Vaðlaheiðargöng hf. samþykkt fjárframlög til beggja slökkviliða sveitarfélaganna til kaupa á sérhæfðum slökkvibílum og búnaði til brunavarna í göngunum.
Starfsmannahald
Ýmsar breytingar hafa verið og eru framundan í starfsmannahaldi skrifstofu sveitarfélagsins. Fyrr í haust fór Jónas Halldór Friðriksson, umsjónarmaður fasteigna og framkvæmda hjá sveitarfélaginu, í ársleyfi. Í hans stað var Helga Sveinbjörnsdóttir verkfræðingur ráðin tímabundið. Þá mun Bjarni Reykjalín láta af störfum, sem skipulags- og byggingarfulltrúi, um næstu áramót. Bjarni mun þó starfa áfram í 50% starfshlutfalli fram á vor í sérverkefnum m.a. endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem er á áætlun. Bjarni hefur gengt stöðu skipulags- og byggingarfulltrúa fyrir Þingeyjarsveit og Skútustaðahrepp og við höfum áhuga á áframhaldandi samstarfi í skipulags- og byggingarmálum við nágranna okkar. Guðjón Vésteinsson er starfandi skipulagsfulltrúi í Skútustaðahreppi og frá og með áramótum mun Helga Sveinbjörnsdóttir gegna starfi byggingarfulltrúa hjá okkur. Guðjón og Helga munu í samstarfi vinna fyrir bæði sveitarfélögin samkvæmt samstarfssamningi milli sveitarfélaganna. Næsta haust mun þetta fyrirkomulag svo verða endurskoðað.
Sorphirða og gámavöllur
Borið hefur á að hnökrar hafa verið á sorphirðunni hjá Gámaþjónustunni, töluvert er um að tunnur hafi ekki verið tæmdar o.fl. Það er mikilvægt að fá þessar upplýsingar á skrifstofuna svo við getum komið þeim áfram til Gámaþjónustunnar. Við höfum verið í samskiptum við Gámaþjónustuna vegna þessa og verið er að fara yfir verkferla þar. Þá vil ég minna á gámavöllinn okkar við Stórutjarnir og klippikortin og hvet ég íbúa til að nýta sér völlinn en með framvísun klippikorta þarf ekki að greiða fyrir móttöku sorps á gámavellinum. Eitt klippikort á ári er innifalið í árlegu sorphirðugjaldi og geta íbúar nálgast klippikortin á skrifstofu sveitarfélagsins eða óskað eftir því að fá þau send heim. Aðrir, til að mynda rekstraraðilar, greiða fyrir móttöku sorps samkvæmt gjaldskrá gámavallarins.
Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegrar aðventu, munum að njóta og gleðjast saman.
Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri