Bréf til íbúa Þingeyjarsveitar

Kæru íbúar, líkt og áður sendi ég ykkur fréttabréf þar sem ég greini frá nokkrum verkefnum sem eru í gangi í sveitarfélaginu okkar.

Gámavöllurinn

Framkvæmdir hafa staðið yfir í sumar við gámavöllinn á Stórutjörnum, búið er að girða svæðið af, steypa plön og koma fyrir þjónustuhúsi. Nú er verið að vinna við lokafrágang og er áætlað að honum ljúki um miðjan ágúst n.k. Þá stefnum við að því að hafa formlega opnun á gámavellinum þar sem íbúum gefst kostur á að kynna sér svæðið og þá þjónustu sem boðið verður uppá. Opið er á gámavellinum miðvikudaga og föstudaga frá kl. 16:00-18:30 og nú síðast var bætt við sumaropnun á laugardögum frá 10:00-12:00. Starfsmaður á staðnum, Hermann Pétursson, tekur vel á móti ykkur og leiðbeinir varðandi flokkun. Greinargóðar upplýsingar um sorpmál má einnig finna á heimasíðunni okkar sem ég hvet ykkur til að skoða en þar uppfærum við allar breytingar og nýjustu upplýsingar.

Seigla – miðstöð sköpunar

Tímabundnu starfi verkefnastjóra við Seiglu – miðstöð sköpunar er nú lokið. Anita Karin  Guttesen hefur sinnt starfi verkefnisstjóra undanfarin tvö ár og eru henni þökkuð vel unnin störf en margt hefur áunnist í þessu verkefni mótvægisaðgerða. Þá hefur Guðrún Steingrímsdóttir einnig látið af störfum en hún sá um ræstingu o.fl. í Seiglu og eru henni þökkuð vel unnin störf. Í Seiglu er nú ýmis starfsemi, þar eru m.a. Urðarbrunnur menningarfélag, Héraðssamband Þingeyinga, Þekkingarnet Þingeyinga, Advania og Verkís verkfræðistofa með aðstöðu. Einnig eru Bókasafn Reykdæla, Hársnyrtistofa Örnu og snyrtistofan Snyrtipinninn, með þjónustu þar. Í kjallara hússins er mjög góð aðstaða til listsköpunar og ýmiskonar handverks en þar hafa verið haldin fjölmörg námskeið og kynningar. Starfsemi Seiglu mun því halda áfram en þó með breyttu sniði þar sem húsvarðarstarfið við Félagsheimilið á Breiðumýri hefur verið sameinað yfirumsjón með starfseminni í Seiglu. Nú fyrr í sumar var auglýst eftir starfsmanni til að gegna þessu nýja starfi sem ber heitið forstöðumaður og er um fulla stöðu að ræða. Forstöðumaður mun sinna húsvörslu, sjá um skipulagningu viðburða, umsýslu verkefna, þrif o.fl. Ákveðið hefur verið að ganga til samninga við Borgar Þórarinsson um stöðuna. Áætlað er að Borgar hefji störf um næstu mánaðarmót. Starf húsvarðar á Breiðumýri mun verða lagt niður í þeirri mynd sem það er nú frá og með 1. október n.k. Á heimasíðu sveitarfélagsins er hægt að finna frekari upplýsingar um Seiglu – miðstöð sköpunar.

Ljósleiðarinn

Lagningu ljósleiðarakerfis í sveitarfélaginu miðar vel áfram. Framkvæmdir standa nú yfir í Bárðardal og í framhaldinu verður hafist handa í Laxárdal. Þegar er búið að leggja ljósleiðaraheimtaugar inn hjá 49 notendum af þeim 117 sem eru á áætlun í lokaáfanga þessa verkefnis. Nokkrir hafa haft samband við mig varðandi frágang framkvæmdaaðila, að víða séu enn opnar holur með tengiboxum og rörum. Samkvæmt upplýsingum frá Tengi hf. þá mun þetta allt verða lagað fyrir verklok en samkvæmt samningi þá var gert ráð fyrir að eitthvað yrði um ófrágengnar holur á meðan framkvæmdir stæðu yfir. Hins vegar bið ég ykkur að hafa samband við Tengi hf. ef þið teljið að holurnar skapi slysahættu og þá þarf að bregðast við því strax. Við lokaúttekt á verkinu verður fylgst með því að allur frágangur uppfylli skilyrði samningsins. Stefnt er að því að framkvæmdum verði lokið fyrir áramót og þá ættu allir íbúar Þingeyjarsveitar utan markaðssvæða í dreifbýli sem samþykktu tengingu, að vera komnir með möguleika á að tengjast góðu og öruggu fjarskiptasambandi. 

Goðafoss

Framkvæmdir eru nú við Goðafoss líkt og undanfarin sumur. Í ár fékk sveitarfélagið úthlutuðum styrk að upphæð 28,6 millj.kr. til verkefnisins frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Helstu verkefni sem eru á áætlun í ár eru útsýnispallur, tröppur og stígar að vestanverðu við fossinn sem og frekari frágangur að austanverðu. Að austanverðu hefur bílastæðið verði stækkað og eru nú stæði fyrir um 90 bíla. Einnig er fyrirhugað að endurgera og stækka bílastæðið að vestanverðu og sótt hefur verið um fjármagn í það verkefni. Markmiðið með þessum framkvæmdum við Goðafoss er að bæta aðgengi, tryggja öryggi og vernda náttúruna á svæðinu.

Kerfill, lúpína og risahvönn

Margir hafa komið að máli við mig og lýst áhyggjum sínum varðandi ágengar jurtir eins og kerfil, lúpínu og risahvönn, sem eru að leggja undir sig stór svæði hér í sveitarfélaginu. Þó víða sé um eignarlönd að ræða þá er ekki þar með sagt að þetta sé einkamál hvers og eins. Þá er spurning hvort sveitarfélagið geti með einhverjum hætti komið að þessu til að mynda með kortlagningu, skipulagningu íbúasamtaka og samstilltu átaki íbúa gegn þessum vágesti. Þetta erum við skoða og munum bregðast við með einhverjum hætti. 

Skrifstofa sveitarfélagsins

Breytingar urðu á starfsmannahaldi á skrifstofu sveitarfélagsins í vor þegar Olga Marta Einarsdóttir lét af störfum sem ræstitæknir en hún hefur séð um ræstingar á skrifsofunni s.l. fjögur ár. Friðrika Björk Illugadóttir var ráðin í starfið þann 15. maí s.l.  Ég býð Friðriku  velkomna til starfa um leið og ég þakka Olgu Mörtu fyrir fyrir vel unnin störf. Að lokum minni ég á árlega sumarlokun á skrifstofunni, dagana 7. – 11. ágúst, en líkt og undanfarin ár höfum við lokað vikuna eftir verslunarmannahelgi vegna sumarleyfa starfsfólks.

Ég óska ykkur alls hins besta, njótið góðra stunda sem eftir lifir sumars og vonandi fáum við góða berjatíð.

Dagbjört, sveitarstjóri.