Fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar 2020-2023 samþykkt

Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins 2020-2023 var afgreidd í dag, 13. desember. Í fjárhagsáætlun 2020 eru skatttekjur 985 m.kr. og heildar tekjur 1.271 m.kr. Rekstrarniðurstaða A hluta er jákvæð um 8,5 m.kr. og rekstrarniðurstaða A og B hluta er jákvæð um 3,9 m.kr. Veltufé frá rekstri er 56 m.kr. og áætlaðar fjárfestingarhreyfingar eru um 115,7 m.kr. Gert er ráð fyrir nýrri lántöku á árinu 2020 að fjárhæð 120 m.kr.

Helstu fjárfestingar á næsta ári eru gatnagerð vegna nýbygginga, endurbætur á eldhúsi í Stórutjarnaskóla og flutningur skrifstofu sveitarfélagsins í Seiglu að því gefnu að samningar náist um að heilsugæsla og aukin þjónusta við íbúa verði í núverandi húsnæði skrifstofunnar í Kjarna.

Í þriggja ára áætluninni er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu A hluta og samstæðu A og B hluta öll árin og lántöku upp á 65 m.kr. næstu tvö ár og 75 m.kr. árið 2023.

Áfram verður boðið uppá fríar máltíðir fyrir nemendur í grunn- og leikskólum sem og frí námsgögn. Frístundastyrkur barna og ungmenna verður óbreyttur eða 15.000 kr. Raunlækkun verður á gjaldskrám til að mynda í leik- og tónlistarskólum, sundlaug o.fl. þar sem þær haldast óbreyttar.

Aðrar gjaldskrár fylgja verðlagsþróun og hækka um 2,5% en sorphirðugjöld á íbúðarhús hækka um 15% til þess að mæta kostnaði við sorphirðu, gjöld á sumarhús haldast þó óbreytt. Tekjumörk eldri borgara og öryrkja við innheimtu fasteignaskatts lækka töluvert sem mun leiða til þess að fleiri njóta afsláttar.