Fjölskylduhátíð Þingeyjarsveitar

Kæra lýðveldið okkar er hvorki meira né minna en 80 ára í ár!

Af því tilefni bjóða Kvenfélag Mývatnssveitar, Ungmennafélagið Efling og Þingeyjarsveit til Fjölskylduhátíðar í Þingeyjarsveit. Afmælisnefndin hefur sett saman skemmtilega helgardagskrá sem endar með hátíðarhöldunum sjálfum á 17. júní. Við hvetjum íbúa til að fjölmenna á viðburðina og hafa gaman saman - þetta verður hátíð til að muna eftir!

Sérð þú tröll í hrauninu?
Fyrsti liður í dagkránni er fjölskylduganga í Dimmuborgum laugardaginn 15. júní kl. 15. Landvörður frá umhverfisstofnun leiðir gesti í gegnum hraunið og fræðir um svæðið. Boðið verður upp á létta hressingu.
Hvetjum fólk á öllum aldri að koma og njóta samverunnar í einni fallegustu náttúruperlu landsins - gírum okkur upp fyrir 17. júní saman!
 
Ertu dreki eða bergrisi? Gammur eða griðungur?
Sunnudaginn 16. júní er fjölskyldum boðið í listasmiðju í Skjólbrekku í umsjón Myrru leifsdóttur, verkefnastjóra hjá Þingeyjarsveit. „Við ætlum að skoða landvætti Íslands og búa til okkar eigin landvættafána og grímur“ segir Myrra sem er myndlistarmenntuð og hefur haldið fjöldan allan af vinnustofum og kennt bæði börnum og fullorðnum myndlist. Þeir listamenn sem mæta á 17. júní hátíðina á Laugum eru hvattir til að setja grímurnar upp þar í tilefni dagsins. Úr fánunum stendur til að föndra fánalengjur sem á að skreyta hátíðarsvæðið með. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir meðan pláss leyfir og efnabyrgðir endast.
 
HÆ HÓ JIBBÍ JEI!
Þjóðhátíðardaginn sjálfan höldum við hátíðlegan saman á Laugum; 
 

11:00 Andlitsmálning - Börn geta fengið andlitsmálningu fyrir skrúðgönguna við Íþróttahúsið á Laugum.

12:00 Skrúðganga - Gengið frá íþróttahúsinu niður á íþróttavöllinn.

12:15 Hátíðardagskrá hefst á vellinum;

           Þingeyskir kórar syngja saman.

           Ávarp fjallkonunnar.

           Menningarverðlaun Þingeyjarsveitar 2024.

            Villi Vísindamaður tryllir lýðinn með spennandi tilraunum, glensi og gríni!

13:00 – 15:00 Skemmtidagskrá;

           Markaðstorg Hægt að kaupa ljúffengar veitingar og afurðir frá

           sveitungum í sölutjaldinu.

           Listasmiðja láttu ljós þitt skína og málaðu steina með Aðalbjörgu.

           Hestar börnum er boðið á hestbak.

           Sápupartý sápurennibraut og sápubolti.

           ATH! Hafa með aukaföt, sundföt og handklæði.

10:00-16:00 Sundlaugin opin og aðgangur ókeypis. Upplagt að skola af sér sápuna og enda daginn í sundi!

Persónulega safnið á Einarsstöðum og Byggðasafnið á Grenjaðarstað eru opin þann 17. júní. Á Grenjaðarstað eru gestir hvattir til að mæta í þjóðbúning og þiggja kaffi og kleinur í boði hússins.

Við þökkum afmælisnefndinni fyrir alla þá miklu vinnu sem hún hefur unnið upp á síðkastið! Nefndina í ár skipa Aðalbjörg Birgisdóttir, Aðalbjörn Jóhannsson, Valgerður Jósefsdóttir, Gunnhildur Hinriksdóttir, Anna Dagbjört Andrésdóttir og Myrra Leifsdóttir.