Fulltrúar á ferð og flugi
Í vikunni fóru Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri og Gerður Sigtryggsdóttir oddviti, til Reykjavíkur til að hitta ráðamenn og ræða hagsmunamál Þingeyjarsveitar. Þær funduðu meðal annars með forstöðumanni Jöfnunarsjóðs þar sem farið var yfir nýjar úthlutunarreglur og hvaða þýðingu þær hafa fyrir sveitarfélagið.
Einnig heimsóttu þær Loga Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. Logi er einnig fyrsti þingmaður NA kjördæmis og þekkir vel þær áskoranir sem Þingeyjarsveit stendur frammi fyrir. Margt bar á góma þótt aðaláherslan hefði verið lögð á nýtingu þeirra fjölmörgu nýsköpunartækifæra tengdum jarðhitaauðlindum í sveitarfélaginu.
Þá sátu sveitarstjóri og oddviti Ársfund Landsvirkjunar sem var einkar fróðlegur í ljósi þess að 60 ár eru liðin frá stofnun Landsvirkjunar. Yfirskrift fundarins var Sterk framtíð á stoðum fortíðar. Í málflutningi forstjóra LV og fjármálaráðherra kom m.a. fram að nauðsynlegt væri að stærri hluti tekna af orkuvinnslu rynni til nærsamfélags virkjana og forgangsatriði væri að tryggja orkuöryggi heimila og almennra notenda.
Auk þess funduðu sveitarstjóri og oddviti með nokkrum þingmönnum kjördæmisins um helstu hagsmunamál sveitarfélagsins. Má þar nefna samgönguumbætur, kostnað við snjómokstur, réttlátari skiptingu skatttekna af orkuvinnslu, uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu og mikilvægi öruggra fjarskipta á landsbyggðinni.
Ferðir sem þessar eru gríðarlega mikilvægar til að fylgja eftir áherslum sveitarfélagsins gagnvart ríkisvaldinu því eins og máltækið segir, sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær.