Fyrirhugaðar framkvæmdir og skýrsla sveitarstjóra

Á fundi sveitarstjórnar í dag, 2. apríl var samþykkt samhljóða að halda óbreyttri fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins árið 2020 en fyrirhugaðar eru ýmsar framkvæmdir á árinu, endurnýjun á eldhúsi í Stórutjarnaskóla, endurbætur á Seiglu vegna flutnings stjórnsýslu, nýbyggingar leiguíbúða og gatnagerð, nýbygging salernisaðstöðu við Aldeyjarfoss, frágangsvinnu við Leikskólann Barnaborg og við gámavöll sem og ýmsar viðhaldsframkvæmdir m.a. í skólabyggingum og sundlaug. 

Á fundinum fór sveitarstjóri yfir  helstu verkefni úr starfi sveitarfélagsins síðustu vikur og lagði fram eftirfarandi skýrslu:

Fundir viðbragðsteymis Þingeyjarsveitar

Viðbragðsteymi Þingeyjarsveitar vegna COVID-19 hefur fundað reglulega s.l. vikur. Engin smit hafa enn greinst í Þingeyjarsveit en 35 staðfest smit eru á Norðurlandi eystra. Reglulega er fundað með skólastjórum grunnskólanna. Sveitarstjóri upplýsir sveitarstjórn reglulega um málefni funda viðbragðsteymisins.

Grunn- tónlistar- og leikskólar

Fjarnám á öllum stigum grunn- og tónlistardeilda s.l. viku hefur gengið vel, foreldrar eru almennt ánægðir og jákvæðir og hafa hrósað skólunum fyrir að fara þessa leið. Sama má segja um kennara sem hafa lagt sig alla fram um að láta þetta ganga og eiga hrós skilið.

Skólastjórar eru báðir sannfærðir um að það hafi verið rétt ákvörðun að loka skólunum og fara þá leið sem ákveðið var að fara, skólarnir væru að veita betri þjónustu til nemenda en hefði verið með því fyrirkomulagi sem viðhaft var í upphafi samkomubanns og takmörkunar á skólahaldi. Nú sitja allir við sama borð, allir nemendur í fjarnámi. Einnig nefndu skólastjórarnir að þessi ákvörðun hefði létt mikið á kvíða sem var vaxandi, bæði hjá starfsfólki og nemendum.

Skólastjórar hafa verið í sambandi við foreldra leikskólabarna sem tilheyra forgangshópi og upplýst þá um að leikskólar verði opnir þeim sé þess óskað. Nokkrir foreldrar hafa nýtt sér þá þjónustu í Barnaborg.

Sambandi íslenskra sveitarfélaga var send greinargerð um þetta fyrirkomulag skólahalds í Þingeyjarsveit og upplýst um hvers vegna þessi leið var farin. Í svari frá sambandinu kemur fram að unnið væri virkilega metnaðarfullt námsskipulag fyrir alla aldurshópa í Þingeyjarsveit og einstaklega vel að þessu staðið, eftirfylgni og samskipti við nemendur til fyrirmyndar.

Hér er um mikið samstarf heimilis og skóla að ræða sem tekst vel ef allir leggja sitt að mörkum, kennarar, nemendur og foreldrar. Þetta er ein birtingarmynd þeirra samstöðu sem við finnum svo vel fyrir í samfélaginu okkar á þessum sérstöku tímum.  

Skólaakstur hefur legið niðri þar sem skólastarf var fært heim í fjarkennslu en skólabílstjórar fá greitt sem svarar 50% af daglegum akstri sem er í samræmi við gildandi samninga um skólaakstur.

Aðstoð við innkaup, samstarf við Dalakofann
Sveitarfélagið býður nú uppá að keyra heim vörur í samstarfi við Dalakofann fyrir einstaklinga sem tilheyra viðkvæmum hópum í sveitarfélaginu og geta ekki nálgast þær sjálfir sökum COVID-19 faraldursins. Íbúar hafa samband við Dalakofann sem tekur við pöntunum og starfsmaður sveitarfélagsins keyrir út vörurnar til einstaklinganna. Boðið er upp á þessa þjónustu á fimmtudögum. Þeir íbúar sem sannarlega þurfa á þessu að halda eru hvattir til þess að nýta þessa þjónustu.

Sveitarfélagið hefur einnig verið í sambandi við Rauða krossinn, björgunarsveitir og aðra sjálfboðaliða sem hafa boðist til þess að aðstoða við innkaup fyrir viðkvæma hópa.

Fundur með nágrönnum í Ásahreppi

Fulltrúar Ásahrepps hafa óskað eftir fundi með fulltrúum Þingeyjarsveitar til þess að ræða aðalskipulag en bæði sveitarfélögin vinna nú að endurskoðun þess og mikilvægt að samræma ýmis sjónamið og stefnu þar sem sveitarfélögin liggja saman.

Afgreiðslu ársreikninga sveitarfélaga

Ákveðið hefur verið að veita öllum sveitarstjórnum landsins heimild til að framlengja tímafresti um meðferð og skil ársreikninga. Enn sem komið er stefnum við á að afgreiða ársreikninginn 14. maí n.k. eins og upphaflega var áætlað.

Nýtt ákvæði í lögum um almannavarnir

Samþykkt hefur verið nýtt ákvæði í lögum um almannavarnir er fjallar um borgaralega skyldu starfsmanna opinberra aðila. Lagaákvæðið er svohljóðandi: 

“Það er borgaraleg skylda starfsmanna opinberra aðila að gegna störfum í þágu almannavarna á hættustundu. Opinberum aðilum er heimilt að fela starfsmönnum tímabundið breyttar starfsskyldur og að flytja starfsmenn tímabundið milli starfsstöðva og opinberra aðila til að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu. Starfsmenn halda óbreyttum launakjörum við slíkar aðstæður. Þó er starfsmaður undanþeginn framangreindri skyldu sé heilsufari hans, eða annars einstaklings sem hann ber ábyrgð á, svo háttað að öryggi hans og heilsu sé stefnt í sérstaka hættu með því að fela honum að gegna slíkum störfum.“
Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. janúar 2021.

Ársfundur Samtaka sveitarfélaga á Norðausturlandi (SSNE)

Í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í samfélaginu vegna COVID-19 veirunnar hefur stjórn SSNE í samráði við fulltrúa allra aðildarsveitarfélaga ákveðið að fresta fyrirhuguðum aðalfundi sem átti að fara fram í lok apríl. Þess í stað verður boðað til aðalfundar í september.

Fjárfestingarátak stjórnvalda vegna COVID-19

Alþingi hefur samþykkt viðbótarframlag uppá 3,3 milljarða sem ákveðið hefur verið að setja í fækkun einbreiðra brúa á næstu tveimur árum. Brúin yfir Skjálfandafljót hjá Fosshóli við Goðafoss er meðal þeirra einbreiðu brúa sem verða breikkaðar á þessu ári sem er mikið ánægjuefni.

Stöðufundir með aðgerðarstjórn Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra.
Sveitarstjóri hefur setið reglulega fjarfundi með aðgerðarstjórn á svæðinu þar sem nýjustu upplýsingar eru veittar um stöðu mála.  Sveitarstjóri upplýsir sveitarstjórn reglulega um málefni fundanna.

Á svæðinu hefur staðfestum smitum verið að fjölga og einnig fjölgar einstaklingum í sóttkví.  í gær, 1. apríl voru 25 staðfest smit á Akureyri, 1 á Grenivík, 1 á Húsavík, 1 á Siglufirði og 5 í Mývatnssveit. Tölulegar upplýsingar má sjá inni á covid.is þar sem þær eru uppfærðar reglulega. Á fundunum hefur verið rætt um áhyggjur hvað varðar þolinmæði almennings gagnvart samkomubanninu en nú hefur það verið framlengt út apríl. Í framhaldi af því vill sveitarstjóri hvetja íbúa til þess að hlýða fyrirmælum yfirvalda, virða samkomubannið og beinir þeim tilmælum til fólks að halda sig heima við um páskana.

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri