KORTLAGNING ÁGENGRA PLÖNTUTEGUNDA Í ÞINGEYJARSVEIT

Þingeyjarsveit hefur fengið Náttúrustofu Norðausturlands til að kortleggja útbreiðslu bjarnarklóar, skógar- og spánarkerfils og alaskalúpínu í Þingeyjarsveit. Kortlagning mun fara fram í sumar og sumarið 2020. Í sumar verður lögð áhersla á kortlagningu í Reykjadal, Laxárdal, Aðaldal, Kaldakinn og Útkinn.

Við kortlagningu á lúpínu verður stuðst við útbreiðslukort Náttúrufræðistofnunar Íslands af lúpínu frá 2017 en auk þess verður litið eftir mögulegum nýjum fundarstöðum tegundarinnar. Kortlagning á útbreiðslu kerfils hefur ekki verið gerð á svæðinu og langt frá því að allir fundarstaðir tegundanna séu skráðir. Vitað er um útbreiðslu bjarnarklóar á Laugasvæðinu.

Vinnan tekst því betur sem glöggir vegfarendur, landeigendur, íbúar og annað áhugafólk lætur sig málið varða. Starfsfólk Náttúrustofunnar óskar hér með eftir að þeir sem búa yfir upplýsingum um útbreiðslu tegundanna og vilja láta sig málið varða hafi samband símleiðis (milli kl. 8 og 16 virka daga) eða með tölvupósti. Sérstaklega er óskað eftir upplýsingum um fundarstaði bjarnarklóar, kerfils og nýlega fundarstaði lúpínu (stakar plöntur og litlar breiður). 

Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir, stella@nna.is (464 5113) og Sesselja Guðrún Sigurðardóttir, sissa@nna.is (464 5112).