Sumarið er handan við hornið og því fylgja ýmis konar tímamót! Framhaldsskólinn á Laugum brautskráði 34 nemendur á dögunum og skólaslit allra skóla í sveitarfélaginu voru nú um mánaðarmótin.
Leikskólanemendur sveitarfélagsins sem eru að hefja grunnskólagöngu í haust fóru í sameiginlega útskriftarferð í lok mánaðarins. Það er óhætt að segja að spenningurinn hafi verið mikill enda afar stórt skref að fara í útskriftarferð, hvað þá með öðrum skólum.
Hóparnir hittust í Mývatnssveit þar sem farið var á Fuglasafnið, í klifur á Klifurveggnum í Íþróttamiðstöðinni og í göngu um Skútustaðagíga. Nemendurnir nutu að sjálfsögðu veitinga úr nærumhverfi, fengu ís í Skútaís, Kakó í Vogafjósi og hádegismat á Sel-Hóteli.