Ný og betri heimasíða
Þingeyjarsveit hefur opnað nýja og endurbætta heimasíðu sem markar stórt skref til að bæta upplýsingaflæði og þjónustu við íbúa og gesti sveitarfélagsins. Með fersku og nútímalegu útliti og einfaldara leiðarkerfi er markmiðið að gera þjónustu sveitarfélagsins skilvirkari og heimasíðuna auðveldari í notkun. Nýja vefsíðan gerir notendum kleift að finna helstu upplýsingar fljótt og örugglega, hvort sem um er að ræða opnunartíma, fundargerðir, umsóknarform eða viðburðadagatal.
"Við vonumst til þess að nýja heimasíðan muni ná betur til íbúa okkar og auka aðgengi að upplýsingum um þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir. Markmiðið er að skapa öflugra tól fyrir samskipti og samráð milli íbúa og sveitarfélagsins," segir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri.
„Okkur þykir vænt um að heyra viðbrögð og fá endurgjöf frá íbúum, þrátt fyrir að vefsíðan sé komin í loftið mun hún vera í stöðugri vinnslu og uppfærslu áfram.
Við hvetjum íbúa til að skoða heimasíðuna og senda okkur ábendingar eða hugmyndir sem geta hjálpað okkur að gera hana enn betri. Á síðunni er að finna ábendingahnapp því er mjög þægilegt að senda okkur endurgjöf með einu klikki!
Öflugt viðburðadagatal
Á nýju heimasíðunni er að finna öflugt og notendavænt viðburðadagatal sem ætlað er að sameina allt það sem er að gerast í sveitarfélaginu á einum stað. Við hvetjum alla íbúa, félagasamtök og viðburðarhaldara til að taka þátt með því að skrá viðburði inn á dagatalið. Hvort sem um er að ræða tónleika, námskeið, fundi eða messur, viljum við tryggja að allir íbúar hafi yfirsýn yfir það fjölbreytta félagslíf sem blómstrar í sveitarfélaginu.
"Það er markmið okkar að dagatalið verði lifandi vettvangur þar sem fólk getur auðveldlega fundið það sem er í gangi ásamt því að koma sínum viðburðum á framfæri," segir Úlla Árdal hjá Mývatnsstofu.
Við skorum á alla að vera virkir þátttakendur og hjálpa okkur að fylla dagatalið af lífi! Skráning viðburða er einföld og fer fram á forsíðunni. Ef upp koma spurningar eða vandamál er starfsfólk sveitarfélagsins ávallt tilbúið að aðstoða.
Saman getum við gert viðburðadagatal Þingeyjarsveitar að ómissandi verkfæri fyrir alla íbúa!