Föstudaginn 30. október var stjórn Leiguíbúða Þingeyjarsveitar hses. viðstödd fyrstu skóflustungu að tveimur þriggja herbergja 80m2 íbúðum á parhúsi sem reisa á við Melgötu 6, við Stórutjarnir. Þetta verða fyrstu íbúðir félagsins en Leiguíbúðir Þingeyjarsveitar er húsnæðissjálfeignarstofnun sem hefur þann tilgang að byggja eða kaupa íbúðir til leigu samkvæmt lögum um almennar íbúðir nr. 52/2016.
Eftirspurn hefur verið eftir leiguíbúðum í Þingeyjarsveit og er því framtak félagsins mikilvægt fyrir sveitafélagið. Gert er ráð fyrir að afhending á íbúðunum verði á vormánuðum 2021.
Íbúðirnar verða byggðar af verktakafyrirtækinu Faktabygg Ísland ehf. sem var valið af stjórn Leiguíbúða Þingeyjarsveitar eftir forvali vegna fyrirhugaðra framkvæmda félagsins árið 2020.
Þá hafa Leiguíbúðir Þingeyjarsveitar og verktaki ákveðið að byggingarnar verði Svansvottaðar og þar með er um að ræða fyrstu Svansvottuðu húsin utan höfuðborgasvæðisins. Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna, meginmarkmið Svansins er að draga úr umhverfisáhrifum af vörum eða þjónustu og auðvelda neytendum að velja umhverfisvænni kosti. Viðmið Svansins fyrir nýbyggingar taka til margra ólíkra þátta sem eiga að stuðla að betri gæðum byggingarinnar fyrir umhverfið og heilsu notenda.
Auk þess að byggja parhúsið við Melgötu 6 fyrirhugar félagið að kaupa eina til tvær íbúðir í fjögurra íbúða nýbyggingu sem stendur til að reisa við Lautarveg 10 á Laugum á þessu ári.