Frá og með deginum í dag, miðvikudeginum 1. mars, verður gámavöllur Þingeyjarsveitar í landi Stórutjarna opinn á miðvikudögum og föstudögum á milli 16:00 og 18:30. Við komu á Gámavöllinn mun starfsmaður taka á móti fólki og leiðbeina þeim við flokkun í gáma ásamt því að taka klipp af klippikortum og rukka þegar það á við.
Greiðendur sorphirðugjalda, heimili og sumarbústaðareigendur, fá eitt klippikort á ári sem hægt er að nálgast á skrifstofu sveitarfélagsins í Kjarna. Hvert klipp á kortinu er 0,25 rúmmetrar og í heildina inniheldur kortið 4 rúmmetra. Ef aðilar fullnýta klippikortið er hægt að kaupa nýtt kort á skrifstofu sveitarfélagsing á 8900kr. Rekstraraðilar geta einnig nýtt sér gámavöllinn, þeir fá hinsvegar ekki klippikort og þurfa að greiða fyrir þá farma sem komið er með á gámavöllinn og falla undir gjaldskylda flokkinn. Því er mikilvægt að koma með alla farma forflokkaða og eins rúmmáls litla og kostur er á þegar komið er á Gámavöllinn.
Á myndinni hér til hægri má sjá þá flokka sem eru gjaldskyldir og þá flokka sem eru til endurvinnslu. Efni sem er undir endurvinnslu má koma með gjaldfrjálst á gámavöll. Ef komið er með farm sem flokkast undir gjaldskylt efni þá er annað hvort tekið klipp af klippikorti, ef um er að ræða heimili eða sumarbústaðareigenda, eða teknar niður upplýsingar um rekstraraðila og rukkað eftir gjaldskrá sem hægt er að sjá HÉR. Á gámavellinum verður hægt að losa steinefni og garðaúrgang án gjalds.
Verið er að vinna upplýsingar fyrir heimasíðu sveitarfélagsins og Gámaþjónustu norðurlands út frá íbúafundunum sem haldnir voru í sveitarfélaginu 15. og 16. febrúar síðastliðinn.