Breyttar reglur um takmörkun á samkomum taka gildi 14. ágúst

Samkvæmt nýrri auglýsingu heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem tekur gildi 14. ágúst verða reglur um nálægðartakmörk í framhalds- og háskólum rýmkaðar og sömuleiðis í íþróttum. Að öðru leyti gildir áfram meginreglan um 2 metra nálægðarmörk. Við aðstæður þar sem eðli starfsemi krefst meiri nálægðar milli einstaklinga en tveggja 2 metra og í almenningssamgöngum þar sem ferð varir í 30 mínútur eða lengur skal nota andlitsgrímu. Hjúkrunarheimilum, öðrum heilbrigðisstofnunum og sambærilegum stofnunum er gert skylt að setja reglur um starfsemi sína, svo sem um heimsóknir utanaðkomandi að heimilum og stofnunum. Fjöldatakmörk miðast áfram við 100 manns að hámarki. Eins og fram kemur í auglýsingu ráðherra er rík áhersla lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir og almennar smitvarnir með tíðum og reglubundnum þrifum þar sem fólk kemur saman.

Þær breytingar sem verða með nýrri auglýsingu um takmörkun á samkomum eru í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis sem fram koma í minnisblaði hans til ráðherra frá 11. ágúst síðastliðnum.

 

Nánari umfjöllun heilbrigðisráðuneytisins er að finna hér: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/08/12/Breyttar-reglur-um-takmorkun-a-samkomum-taka-gildi-14.-agust/