Mikið hefur snjóað víða um land undanfarna daga og ljóst að margir hugsa sér gott til glóðarinnar varðandi útivist. Í ljósi þess viljum við vekja athygli á spá um snjóflóðahættu frá Veðurstofunni sem má sjá nánar hér:
https://www.vedur.is/ofanflod/snjoflodaspa/
Veðurstofan bendir á að talsvert hefur bætt í snjó á norðurhelmingi landsins, frá Vestfjörðum að Austfjörðum, en lítill nýr snjór er sunnan heiða. Óvissustig vegna snjóflóðahættu hefur verið í gildi á Norðurlandi, á norðanverðum Vestfjörðum og Austfjörðum og á þeim svæðum hafa fallið breið flekaflóð. Þessi flóð gefa vísbendingar um viðvarandi veik lög og er varað við ferðum í brattlendi eða undir bröttum hlíðum þar sem snjór hefur safnast. Þótt lítill nýr snjór sé á sunnanverðu landinu þá eru sumstaðar óstöðugir vindflekar í suðurvísandi hlíðum sem geta verið varasamir fyrir fólk á ferð í brattlendi.
Skíða-, útivistar- og vélsleðafólk er hvatt til þess að fara varlega næstu daga sé farið til fjalla og gæta vel að aðstæðum áður en haldið er af stað.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra