Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkti þann 20. október 2016 að heimila Héraðsnefnd Þingeyinga, að vinna tillögu að deiliskipulagi af Þingey og Skuldaþingey á kostnað nefndarinnar skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skv. meðfylgjandi skipulagslýsingu dags 3. október 2016 frá frá Landslagi ehf.
Í vinnu við deiliskipulag verður virðing fyrir náttúru svæðisins, fornminjum og sögu látin ráða för, en m.a. er gert ráð fyrir að vinna við deiliskipulag muni m.a. fela í sér að skilgreina fyrirkomulag áningarstaða, minjasvæða og gönguleiða ásamt því að koma á göngutengingu með göngubrú út í Þingey og Skuldaþingsey. Markmiðið er að að gera Þingey að áhugaverðum áfangsstað heimamanna og ferðamanna sem vilja í senn njóta náttúru eyjarinnar og fræðast um sögu hennar og þar með þjóðarinnar.
Þegar vinna við gerð nýs deiliskipulags hefst, skal sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu. Í skipulagslýsingu koma fram áherslur sveitarstjórn við skipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum.
Skipulagslýsing mun liggja frammi á skrifstofu Þingeyjarsveitar frá og með fimmtudeginum 16. mars til og með fimmtudeginum 6. apríl 2017. Lýsingin verður einnig aðgengileg á sama tíma á heimasíðu Þingeyjarsveitar: http://www.thingeyjarsveit.is/is/stjornsysla/skipulagsmal/deiliskipulag/tillogur-i-auglysingu. Þeim sem vilja gera athugasemdir við lýsinguna eða koma með ábendingar er gefinn frestur til og með 6. apríl til að koma þeim skriflega á framfæri til skrifstofu Þingeyjarsveitar, Kjarna, 650 Laugar og/eða í tölvupósti á netfangið: bjarni@thingeyjarsveit.is.
Allar nánari upplýsingar veitir undirritaður.
Bjarni Reykjalín,
skipulags- og byggingarfulltrúi Þingeyjarsveitar